Körfubolti

Lakers og Atlanta enn taplaus

Kobe Bryant skoraði 9 af 27 stigum sínum í fjórða leikhlutanum
Kobe Bryant skoraði 9 af 27 stigum sínum í fjórða leikhlutanum NordicPhotos/GettyImages

Átta leikir voru á dagskrá í NBA deildinni í körfubolta í nótt. LA Lakers og Atlanta Hawks fögnuðu bæði sigri í nótt og eru einu taplausu liðin í deildinni með sex sigra.

Atlanta lagði Chicago á útivelli 113-108 þar sem Al Horford skoraði 27 stig og hirti 17 fráköst fyrir Atlanta, en Derrick Rose var með 26 stig hjá Chicago. Þetta var fjórði útisigur Atlanta í röð.

LA Lakers vann Dallas 106-99 á útivelli. Kobe Bryant skoraði 27 stig fyrir Lakers en Jason Terry setti 21 stig hjá Dallas og Jason Kidd var með þrennu númer 101 á ferlinum þegar hann skoraði 16 stig, hirti 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Dallas var án Josh Howard í leiknum.

Lakers liðið var lengst af undir í leiknum en læddist fram úr á lokasprettinum og hefur ekki byrjað betur síðan það byrjaði 7-0 árið 2001 þegar það varð meistari.

Utah endurheimti leikstjórnandann Deron Williams úr meiðslum og vann 99-93 sigur á Philadelphia á útivelli þrátt fyrir að vera án miðherjans Mehmet Okur sem er í leyfi í heimalandi sínu Tyrklandi. Carlos Boozer skoraði 19 stig og hirti 16 fráköst fyrir Utah en Andre Miller 25 fyrir Philadelphia.

LeBron James skoraði 41 stig fyrir Cleveland þegar liðið lagði Milwaukee 99-93 á útivelli. Richard Jefferson skoraði 19 stig fyrir Milwaukee. Cleveland hefur unnið sex af fyrstu átta leikjum sínum.

Denver vann þriðja leikinn í röð með Chauncey Billups í sínum röðum þegar það skellti Charlotte á útivelli 88-80. Carmelo Anthony skoraði 25 stig fyrir Denver en Jason Richardson var með 23 stig fyrir Charlotte.

San Antonio lagði New York á heimavelli 92-80. Tin Duncan skoraði 23 stig, hirti 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar hjá San Antonio sem lék án Tony Parker og Manu Ginobili sem báðir eru meiddir. Jamal Crawford skoraði 28 stig fyrir New York.

Detroit vann loksins sigur með Allen Iverson innanborðs. Liðið skellti Sacramento á útivelli 100-92 og skoraði Iverson 20 stig, gaf 9 stoðsendingar og hirti 7 fráköst. Spencer Hawes skoraði 19 stig fyrir Sacramento.

Loks vann Golden State 113-110 sigur á Minnesota í framlengdum leik. Stephen Jackson skoraði 30 stig fyrir Golden State en Al Jefferson skoraði 25 stig og hirti 12 fráköst fyrir Minnesota.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×