Körfubolti

ESPN: Allen Iverson á leið til Detroit

Allen Iverson
Allen Iverson NordicPhotos/GettyImages

ESPN sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum greinir frá því nú síðdegis að Denver Nuggets og Detroit Pistons hafi samþykkt að gera með sér áhugaverð leikmannaskipti.

Þannig mun Denver senda skorarann Allen Iverson til Detroit í skiptum fyrir leikstjórnandann Chauncey Billups og framherjann Antonio McDyess og minni spámann að nafni Cheikh Samb.

Skiptin eru ekki formlega gengin í gegn, en vera má að Allen Iverson sé hér að skipta um lið á yfirstandandi tímabili í annað sinn á tveimur árum. Samningur hans rennur út eftir þessa leiktíð.

Iverson hefur verið einn stigahæsti leikmaður NBA deildarinnar á síðasta áratug og var með 26 stig að meðaltali í leik á síðustu leiktíð.

Chauncey Billups hefur verið einn besti leikstjórnandi NBA deildarinnar undanfarin ár og var kjörinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna árið 2004 þegar Detroit vann NBA meistaratitilinn með sigri á LA Lakers í úrslitum.

Hann spilaði reyndar 58 leiki fyrir Denver fyrir 10 árum þegar hann var á sínu öðru ári í deildinni. Billups skoraði 17 stig og gaf 6,8 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðustu leiktíð.

Antonio McDyess er heldur ekki ókunnugur Denver því hann spilaði þar í sex af fyrstu sjö árum sínum í deildinni. Ekki er talið víst að hann eigi framtíð fyrir sér hjá Denver að þessu sinni.











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×