Eftirmál Þorsteinn Pálsson skrifar 17. apríl 2008 07:30 Eftirmál síðustu vaxtahækkunar Seðlabankans hafa aðallega verið tvenns konar: Annars vegar birtast þau í kröfum úr ýmsum áttum um nýja yfirstjórn bankans. Hins vegar í eins konar uppreisnaráformum atvinnulífsins um einhliða innleiðingu evru um bakdyrnar. Hvort tveggja má að sjálfsögðu ræða. Viðfangsefnin sem brýnast er að glíma við lúta hins vegar að öðru. Vaxtahækkunin sjálf var eðlilega umdeild. Þrennt annað sem fram kom af hálfu Seðlabankans í tengslum við kynningu á henni vekur þó enn frekar upp spurningar um framhaldið bæði til skemmri og lengri tíma. Í fyrsta lagi mátti skilja yfirlýsingar bankastjórnarinnar á þann veg að hún vildi ýta út af borðinu þeim boðskap sem forsætisráðherrann flutti á ársfundi bankans og greinilega hafði jákvæð áhrif á fjármálamarkaðinn. Ekki er víst að það hafi verið ætlunin. En af viðbrögðum mátti merkja að menn væru ekki vissir um að Seðlabankinn og ríkisstjórnin gengju í takt. Tilfinningin ein getur haft sömu áhrif og veruleiki í slíku samhengi. Þessari óvissu verður ekki eytt með orðum. Það sem gildir í því efni er að ríkisstjórnin dragi ekki að koma í framkvæmd þeirri skynsamlegu stefnumörkun sem forsætisráðherra mælti fyrir og miðaði að því að auðvelda bönkunum að takast á við erlenda lánsfjárkreppu. Tímasetningar athafna í tilvikum sem þessum eru vandasamar. Vera má að yfirlýsingar bankastjórnarinnar hafi viljandi eða óviljandi leitt til þess að hafa þurfi hraðari hendur um þetta en áformað var. Í annan stað má ráða af rökstuðningi Seðlabankans fyrir vaxtahækkuninni að hann sjái ekki önnur ráð til að halda niðri verðbólgu en að hækka vexti í þeim tilgangi að fá erlenda spákaupmenn til að draga upp gengi krónunnar á ný. Það gæti vitaskuld haft jákvæð áhrif á innflutningsverð um stund. Til lengri tíma yrði þetta hins vegar endurtekning á sömu hringekjunni. Efnahagslegt jafnvægi og lág verðbólga getur ekki til frambúðar byggst á vaxtagreiðslum til erlendra spákaupmanna. Jafnvægið hlýtur að ráðast af jöfnuði í viðskiptum við útlönd með aukinni verðmætasköpun í landinu. Reiknilíkan bankans hefur það sem af er þessari öld sýnt verðbólgumarkmiðið innan seilingar jafn oft og vaxtaákvarðanir hafa verið tilkynntar. Jafn oft hefur það brugðist og er engu raunhæfara nú en áður. Í þriðja lagi er á það að horfa að nú eru tvö ár síðan aðalhagfræðingur Seðlabankans komst að þeirri niðurstöðu með skýrum rökum að ávinningurinn af sjálfstæðri krónu á opnum fjármálamarkaði væri minni en enginn. Í greinargerð bankans með vaxtahækkuninni nú er engin tilraun gerð til þess að horfast í augu við þetta alvarlega álitaefni. Með öðrum orðum: Bankanum hefur ekki tekist að sýna fram á að ná megi varanlegum stöðugleika með íslenskri krónu. Eins og mál blasa við er meira virði að þessi áleitnu viðfangsefni verði skýrð og leidd til lykta áður en orku verður eytt í skipulagsbreytingar á yfirstjórn Seðlabankans. Fyrst þarf samstöðu um trúverðuga peningamálastefnu og framkvæmd þeirra áforma sem þegar hefur verið lagt upp með af hálfu ríkisstjórnarinnar. Eins er með Samtök atvinnulífsins. Mikilvægara er að þau sameini kraftana til að styrkja umræðuna um upptöku evru á þeim eina grundvelli sem getur skapað tiltrú. Við þurfum ekki nýjar óvissutilraunir. Samstarf samtaka atvinnufyrirtækja og launafólks gæti svo hugsanlega reist á þessu sviði mikilvægan vegvísi að varanlegri stöðugleika. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Eftirmál síðustu vaxtahækkunar Seðlabankans hafa aðallega verið tvenns konar: Annars vegar birtast þau í kröfum úr ýmsum áttum um nýja yfirstjórn bankans. Hins vegar í eins konar uppreisnaráformum atvinnulífsins um einhliða innleiðingu evru um bakdyrnar. Hvort tveggja má að sjálfsögðu ræða. Viðfangsefnin sem brýnast er að glíma við lúta hins vegar að öðru. Vaxtahækkunin sjálf var eðlilega umdeild. Þrennt annað sem fram kom af hálfu Seðlabankans í tengslum við kynningu á henni vekur þó enn frekar upp spurningar um framhaldið bæði til skemmri og lengri tíma. Í fyrsta lagi mátti skilja yfirlýsingar bankastjórnarinnar á þann veg að hún vildi ýta út af borðinu þeim boðskap sem forsætisráðherrann flutti á ársfundi bankans og greinilega hafði jákvæð áhrif á fjármálamarkaðinn. Ekki er víst að það hafi verið ætlunin. En af viðbrögðum mátti merkja að menn væru ekki vissir um að Seðlabankinn og ríkisstjórnin gengju í takt. Tilfinningin ein getur haft sömu áhrif og veruleiki í slíku samhengi. Þessari óvissu verður ekki eytt með orðum. Það sem gildir í því efni er að ríkisstjórnin dragi ekki að koma í framkvæmd þeirri skynsamlegu stefnumörkun sem forsætisráðherra mælti fyrir og miðaði að því að auðvelda bönkunum að takast á við erlenda lánsfjárkreppu. Tímasetningar athafna í tilvikum sem þessum eru vandasamar. Vera má að yfirlýsingar bankastjórnarinnar hafi viljandi eða óviljandi leitt til þess að hafa þurfi hraðari hendur um þetta en áformað var. Í annan stað má ráða af rökstuðningi Seðlabankans fyrir vaxtahækkuninni að hann sjái ekki önnur ráð til að halda niðri verðbólgu en að hækka vexti í þeim tilgangi að fá erlenda spákaupmenn til að draga upp gengi krónunnar á ný. Það gæti vitaskuld haft jákvæð áhrif á innflutningsverð um stund. Til lengri tíma yrði þetta hins vegar endurtekning á sömu hringekjunni. Efnahagslegt jafnvægi og lág verðbólga getur ekki til frambúðar byggst á vaxtagreiðslum til erlendra spákaupmanna. Jafnvægið hlýtur að ráðast af jöfnuði í viðskiptum við útlönd með aukinni verðmætasköpun í landinu. Reiknilíkan bankans hefur það sem af er þessari öld sýnt verðbólgumarkmiðið innan seilingar jafn oft og vaxtaákvarðanir hafa verið tilkynntar. Jafn oft hefur það brugðist og er engu raunhæfara nú en áður. Í þriðja lagi er á það að horfa að nú eru tvö ár síðan aðalhagfræðingur Seðlabankans komst að þeirri niðurstöðu með skýrum rökum að ávinningurinn af sjálfstæðri krónu á opnum fjármálamarkaði væri minni en enginn. Í greinargerð bankans með vaxtahækkuninni nú er engin tilraun gerð til þess að horfast í augu við þetta alvarlega álitaefni. Með öðrum orðum: Bankanum hefur ekki tekist að sýna fram á að ná megi varanlegum stöðugleika með íslenskri krónu. Eins og mál blasa við er meira virði að þessi áleitnu viðfangsefni verði skýrð og leidd til lykta áður en orku verður eytt í skipulagsbreytingar á yfirstjórn Seðlabankans. Fyrst þarf samstöðu um trúverðuga peningamálastefnu og framkvæmd þeirra áforma sem þegar hefur verið lagt upp með af hálfu ríkisstjórnarinnar. Eins er með Samtök atvinnulífsins. Mikilvægara er að þau sameini kraftana til að styrkja umræðuna um upptöku evru á þeim eina grundvelli sem getur skapað tiltrú. Við þurfum ekki nýjar óvissutilraunir. Samstarf samtaka atvinnufyrirtækja og launafólks gæti svo hugsanlega reist á þessu sviði mikilvægan vegvísi að varanlegri stöðugleika.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun