Körfubolti

NBA í nótt: Sigur hjá Detroit eftir dramatískan dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rodney Stuckey og Richard Hamilton ræða málin í leiknum í nótt.
Rodney Stuckey og Richard Hamilton ræða málin í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Detroit vann í nótt sigur á Charlotte Bobcats eftir dramatískan dag þar sem tilkynnt var að Chauncey Billups og Antonio McDyess væru á leið frá félaginu í skiptum fyrir Allen Iverson.

Detroit vann átján stiga sigur á lærisveinum Larry Brown, 101-83, en Brown gerði Detroit að meisturum sem þjálfari árið 2004. Þá var Billups lykilmaður í liði Detroit og kjörinn besti leikmaður úrslitakeppninnar.

Fréttirnar komu gríðarlega á óvart þar sem bæði Billups og McDyess hafa verið afar mikilvægir hlekkir í liði Detroit undanfarin ár.

„Erum við ánægðir með skiptin? Kannski ekki. Ómögulegt að segja," sagði Rasheed Wallace, leikmaður Detroit, eftir leikinn.

Félagi hans, Tayshaun Prince, virtist einnig óánægður með fréttirnar. „Þegar maður hefur spilað í sex ár með einhverjum skapast tengsl sem nú eru allt í einu rofin. Við erum allir í sjokki. En við verðum að halda áfram að spila og mér fannst þetta góður sigur miðað við kringumstæður."

Richard Hamilton skoraði nítján stig fyrir Detroit sem hefur unnið fyrstu þrjá leiki sína á tímabilinu. Wallace skoraði fimmtán en Rodney Stuckey var leikstjórnandi í fjarveru Billups í gær. Hann var með níu stig en forvitnilegt verður að sjá hvernig Iverson verður í því hlutverki með Detroit í vetur.

Shannon Brown var með sextán stig fyrir Charlotte og Gerald Wallace fimmtán og tólf fráköst.

Alls fóru sex leikir fram í NBA-deildinni í nótt og eru þó nokkur lið enn ósigruð eða enn án sigurs.

Philadelphia vann Sacramento, 125-91, en síðarnefnda liðið hefur tapað öllum leikjum sínum til þessa. Thaddeus Young skoraði átján stig fyrir Philadelphia og Lou Williams sautján.

Orlando vann Chicago, 96-93, þar sem Dwight Howard fór mikinn og skoraði 23 stig og tók fimmtán fráköst. Chicago átti möguleika á að jafna metin í lokin en Andres Nocioni klikkaði þá á þriggja stiga skoti.

Memphis vann Golden State, 90-79. Marc Gasol, yngri bróðir Pau Gasol, var með 27 stig og sextán fráköst fyrir Memphis.

Cleveland vann Dallas, 100-81, þar sem LeBron James skoraði 29 stig fyrir Cleveland og Zydrunas Ilgaustas sautján.

Utah vann LA Clippers, 89-73. Paul Millsap skoraði 24 stig, þar af fimmtán í 17-3 spretti Utah í fjórða leikhluta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×