Fallegur boðskapur Davíð Þór Jónsson skrifar 17. febrúar 2008 07:00 Summa jarðar virðist hafa verið furðu jöfn í gegn um aldirnar. Fjöldi atómanna, sem hér eru á sveimi og mynda reikistjörnuna með öllu sem á henni er, hefur víst sveiflast sáralítið síðastliðin árþúsund. Þetta þýðir auðvitað að ekki er hægt að búa neitt nýtt til nema eyðileggja eitthvað sem var fyrir. Hráefnið er takmarkað. En hvernig er það valið hvað eyðist og hvað lifir? Í Matteusarguðspjalli 3:9 segir Jesús: „Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað." Þetta finnst mér fallegur boðskapur, þótt einhverjir megi ekki til þess hugsa að alheiminum sé þannig fyrir komið að einhverju verði að eyða. Sú skoðun er víst ekki í tísku um þessar mundir að það skipti einhverju máli hvaða ávexti maður ber í lífi sínu hérna megin grafar. Það sem mér finnst fallegt við þennan boðskap er tvennt. Í fyrsta lagi er það engum duttlungum háð hvað lifir áfram og hvað deyr. Það sem ber góðan ávöxt lifir, svo einfalt er það. Hitt er brennt, það rennur saman við sköpunarverkið og verður að hráefni í nýja sköpun. Þetta er í raun náttúruvalskenning. Hitt sem er fallegt við þessa speki er að engum er áskapað að vera kastað í eld. Hver maður hefur frjálsan vilja til að ákveða breytni sína sjálfur. Öll eigum við val, við ráðum því sjálf hvaða ávexti við kjósum að bera, því Jesús er hér auðvitað að tala um ávexti andans en ekki frjósemi holdsins. En hverjir eru ávextir andans? Jesús talar um að gera öðrum mönnum það sem maður vill að þeir geri manni. Þetta finnst sumum ógeðfellt. Þeim finnst ósanngjarnt að ekki dugi til sáluhjálpar að passa sig að vera ekki beinlínis vondur við aðra, að gera þeim ekki það sem maður vill ekki að þeir geri manni. Jesús gengur lengra. Hann leggur beinar verknaðarskyldur á herðar okkar, enda vissi hann sem er, að það er hægðarleikur að valda öðrum óbætanlegu tjóni með aðgerðarleysinu einu saman. Nú á dögum er ekki vinsælt að fjasa um eld og eyðileggingu. Það er eins og það sé einhver miðaldakeimur af því. Nútímamaðurinn vill vera látinn í friði, engar skyldur eða skuldadægur - bara skilyrðislausan kærleik og fyrirgefningu. Gallinn er bara sá að kærleikur getur aldrei birst sem sinnuleysi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Davíð Þór Jónsson Mest lesið 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun
Summa jarðar virðist hafa verið furðu jöfn í gegn um aldirnar. Fjöldi atómanna, sem hér eru á sveimi og mynda reikistjörnuna með öllu sem á henni er, hefur víst sveiflast sáralítið síðastliðin árþúsund. Þetta þýðir auðvitað að ekki er hægt að búa neitt nýtt til nema eyðileggja eitthvað sem var fyrir. Hráefnið er takmarkað. En hvernig er það valið hvað eyðist og hvað lifir? Í Matteusarguðspjalli 3:9 segir Jesús: „Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað." Þetta finnst mér fallegur boðskapur, þótt einhverjir megi ekki til þess hugsa að alheiminum sé þannig fyrir komið að einhverju verði að eyða. Sú skoðun er víst ekki í tísku um þessar mundir að það skipti einhverju máli hvaða ávexti maður ber í lífi sínu hérna megin grafar. Það sem mér finnst fallegt við þennan boðskap er tvennt. Í fyrsta lagi er það engum duttlungum háð hvað lifir áfram og hvað deyr. Það sem ber góðan ávöxt lifir, svo einfalt er það. Hitt er brennt, það rennur saman við sköpunarverkið og verður að hráefni í nýja sköpun. Þetta er í raun náttúruvalskenning. Hitt sem er fallegt við þessa speki er að engum er áskapað að vera kastað í eld. Hver maður hefur frjálsan vilja til að ákveða breytni sína sjálfur. Öll eigum við val, við ráðum því sjálf hvaða ávexti við kjósum að bera, því Jesús er hér auðvitað að tala um ávexti andans en ekki frjósemi holdsins. En hverjir eru ávextir andans? Jesús talar um að gera öðrum mönnum það sem maður vill að þeir geri manni. Þetta finnst sumum ógeðfellt. Þeim finnst ósanngjarnt að ekki dugi til sáluhjálpar að passa sig að vera ekki beinlínis vondur við aðra, að gera þeim ekki það sem maður vill ekki að þeir geri manni. Jesús gengur lengra. Hann leggur beinar verknaðarskyldur á herðar okkar, enda vissi hann sem er, að það er hægðarleikur að valda öðrum óbætanlegu tjóni með aðgerðarleysinu einu saman. Nú á dögum er ekki vinsælt að fjasa um eld og eyðileggingu. Það er eins og það sé einhver miðaldakeimur af því. Nútímamaðurinn vill vera látinn í friði, engar skyldur eða skuldadægur - bara skilyrðislausan kærleik og fyrirgefningu. Gallinn er bara sá að kærleikur getur aldrei birst sem sinnuleysi.