Innlent

Trúnaðarbrestur hjá sjálfstæðismönnum leiddi til slita

MYND/Rósa
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, óskar sínum mönnum í borgarstjórn til hamingju með að hafa myndað nýjan meirihluta í borginni og segir á ferðinni nýja kynslóð úr öllum flokkum sem unnið geti að góðum verkum.

„Það er engin spurning að það varð trúnaðarbrestur sem leiddi til þess að leiðir skildi með Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Trúnaðarbresturinn var hjá sjálfstæðismönnum sem funduðu án Vilhjálms borgarstjóra og fóru svo einnig til fundar við formann flokksins, Geir Haarde, án borgarstjóra. Þar var því mikil ólga og sundrung innbyrðis," segir Guðni spurður um stjórnarslit við Framsóknarflokkinn.

Aðspurður hvort hann óttist ekki að samstarf fjögurra flokka í nýjum meirihluta muni ganga erfiðlega segir Guðni að hann óski flokkunum alls hins besta. „Það er lýðræðisleg skylda flokka að mynda meirihluta og þetta er góður meirihluti. Ég vona bara og treysti að menn vinni að heilindum í samstarfinu," segir Guðni.

Spurður hvort Björn Ingi njóti stuðnings flokksforystunnar í málinu segir Guðni að hann hafi áður lýst því yfir að hann myndi treysta honum og borgarstjórnarflokknum til að leiða málið farsællega til lykta. Hann hafi sjálfur fylgst með málinu úr fjarlægð og styðji sitt fólk heils hugar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×