Viðskipti erlent

Fjárfestingasjóður kaupir Barney's

Fjárfestingafélagið Istithmar hefur keypt bandarísku fataverslunina Barney's í New York fyrir 825 milljónir dala, jafnvirði 51,5 milljarða íslenskra króna. Barney's selur vörur í dýrari kantinum en á dögunum kynnti þar breski auðkýfingurinn Philip Green nýja fatalínu Kate Moss, sem hún hannaði fyrir verslanakeðjuna Topshop.

Fjárfestingafélagið er með aðsetur í arabaríkinu Dubai og í eigu stjórnvalda.

Núverandi eigandi verslunarinnar, eignarhaldsfélagið Jones Apparel Group Inc., fær með viðskiptunum tvöfalt meira en það greiddi fyrir verslunina undir lok árs 2004, að sögn bandarísku fréttaveitunnar Bloomberg, sem segir að með gjörningnum sé stefnt að því að auka hagnað Barney's og verðmæti hlutabréfa í versluninni.

Gert er ráð fyrir að sölunni ljúki á haustdögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×