Viðskipti erlent

Árásir í Nígeríu hækka olíuverð

Olíuvinnslustöð.
Olíuvinnslustöð.

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði lítillega á helstu fjármálamörkuðum í dag og fór í tæpa 66 dali á tunnu. Árásir skæruliða á olíuvinnslustöðvar í Nígeríu og væntingar um meiri eftirspurn eftir eldsneyti í Bandaríkjunum á yfirstandandi ársfjórðungi en fyrri spár hljóðuðu upp á eiga helstan þátt í hækkununum.

Skæruliðarnir sprengdu upp þrjár olíuleiðslur frá ítalska olíufyrirtækinu Eni í Nígeríu í gær og varð það til þess að olíuframleiðsla fyrirtækisins dróst saman um 150.000 tunnur á dag. Árásir skæruliða hafa komið hart niður á heildarolíuframleiðslu í landinu sem hefur dregist saman um 28 prósent. Sveiflur á olíuframleiðslu í Nígeríu hafa talsvert áhrif á heimsmarkaðsverðið en Nígería er áttunda umfangsmesta olíuframleiðsluríki í heimi.

Verð á Brent Norðursjávarolíu hækkaði um 39 sent og fór í 65,93 dali á tunnu. Í gær hækkaði verðið um 1,10 dali á tunnu og var þar endir bundinn á lækkanaferli síðustu sex viðskiptadaga á undan.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×