Fastir pennar

Stjórnmálaviðhorfið

Það er sjaldgæft að ríkisstjórnir falli beinlínis í kosningum á Íslandi, hefur í rauninni ekki gerst síðan 1971 þegar viðreisnarstjórnin féll í sögulegum kosningum. Ekki einu sinni síðasta vinstri stjórn féll, hún hefði getað haldið áfram vorið 1991 ef Jón Baldvin hefði kært sig um. Nú eru talsverðar horfur á að ríkisstjórnin falli, en ef hún lafir verður það með mjög naumum meirihluta. Stjórnarmyndun gæti reynst tímafrek.

Eins og stendur sér maður varla að hægt sé að mynda ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins. Hún þyrfti þá að samanstanda af öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki og ekki miklar líkur á að það gerist. Ef Sjálfstæðisflokkurinn sveiflar sér upp í hátt í 40 prósenta fylgi hlýtur það að teljast afar ólýðræðislegt að hann sé ekki í ríkisstjórn.

Á sunnudaginn mun líklega blasa við sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn situr í ríkisstjórn í fjögur ár í viðbót. Nær samfelld seta hans í Stjórnarráðinu mun teygjast upp í tuttugu ár. Eyðimerkurganga annars eða beggja vinstri flokkanna í stjórnarandstöðu mun halda áfram. Það er ekki glæsilegur árangur hjá flokkum sem þó njóta vel yfir fjörutíu prósenta fylgis samanlagt - eða nokkru meira en Sjálfstæðisflokkurinn. Þeir hljóta að þurfa að hugsa taktík sína alveg upp á nýtt eins og Pétur Tyrfingsson skrifar um á bloggi sínu.

--- --- ---

Eins og stendur aukast líkurnar á að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin myndi stjórn dag frá degi. Maður heyrir að sjálfstæðismenn eru unnvörpum að komast á þá skoðun að það sé raunhæfasti kosturinn. Þeir voru dálítið heillaðir af Vinstri grænum en svo hugsuðu þeir sig aðeins betur um. Um hvað ætti stjórn með þeim að snúast? Það er líka eins og Vinstri grænir hafi misst taktinn. Umhverfisumræðan er dottin upp fyrir. Hún stekkur af þjóðinni eins og vatn af heiðagæs.

Eftir uppsveiflu síðustu mánaða er eins og Vinstri grænir höndli ekki alveg kosningabaráttuna. Kannski er það einfaldlega vegna þess að flokkurinn á enga kosningavél? Þetta er frekar fámennur og lokaður hópur. Fyrir nokkrum vikum skynjaði maður hvarvetna aðdáun á Steingrími J. - það var talað um hann sem verðandi forsætisráðherra - en nú er eins og tónninn hafi breyst. Steingrímur virkar dálítið ráðvilltur. Styrmir segir að VG eigi að hætta að sýna hann og tefla fram Guðfríði Lilju og Katrínu Jakobsdóttur. Ég er ekki viss um það það sé rétt. Þrautseigjan og krafturinn í Steingrími er þrátt fyrir allt sterkasta tromp VG. En hafa þeir eitthvað til að stöðva fylgisflóttann á síðustu dögum baráttunnar?

--- --- ---

Framsóknarflokkurinn spilar kosningabaráttuna heldur einkennilega. Hann er í gríð og erg að ráðast á Vinstri græna. Kannski hefur framsóknarmönnum orðið eitthvað ágengt með að reyta fylgi af VG, en það hefur ekki leitað yfir Framsóknarflokkinn heldur virðist það streyma yfir til Samfylkingarinnar. Það er eins og framsóknarmenn ráði bara ekki við sig - andúðin á Steingrími og hans fólki er svo sterk. Hún er reyndar fullkomlega gagnkvæm.

Á meðan er Sjálfstæðisflokkurinn augljóslega að hirða kjósendur af Framsókn í stórum stíl. Einstaka framsóknarmenn eru að reyna að búa til ágreining við Sjálfstæðisflokkinn - nefna til dæmis einkavæðingu í heilbrigðiskerfi - en það er örugglega of seint. Arfi Halldórs Ásgrímssonar verður ekki kastað burt svo auðveldlega.

Framsókn á varla aðra möguleika á þeim vængnum en að reyna að fá lánuð atkvæði af Sjálfstæðisflokknum. Einn frammámaður í Sjálfstæðisflokki sagði reyndar við mig að þeir væru að gera einmitt það. Hringja í kjósendur sem sjálfstæðismenn teldu að væru merktir sér. Rugla markaskránni. Í kosningunum 1967 er sagt að sjálfstæðismenn hafi lánað Alþýðuflokknum atkvæði til að forða viðreisnarstjórninni frá falli.

En nú eru aðrir tímar og líklega tímir Sjálfstæðisflokkurinn engum atkvæðum. Ekkert þakklæti að hafa á þeim bæ.

--- --- ---

Framsóknarmenn geta þó huggað sig við að allir flokkar eru að breytast í framsóknarflokka fyrir kosningarnar. Sjálfstæðisflokkurinn sendir mjög einkennilegan póst heim til landsmanna. Í einu póstkorti er sagt að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur umhverfisverndar, í öðru segir að hann hugsi svo vel um gamla fólkið.

Þetta eru nákvæmlega þau svið þar sem sjálfstæðismenn hafa staðið sig illa. Hví þá að sigla undir fölsku flaggi? Hví ekki að stæra sig af raunverulegum verkum sínum og mörgum ágætum - til dæmis einkavæðingu - í stað þess að vera eins og gaukurinn sem verpir í hreiður annarra fugla?

Líklega er þetta liður í þeirri strategíu Sjálfstæðisflokksins að reyna að drepa allri raunverulegri umræðu á dreif fyrir kosningarnar. Játa eiginlega engu og neita ekki heldur. Láta þetta helst ekki snúast um pólitík. Flokknum er reyndar að verða mjög vel ágengt með þetta. Kosningarnar snúast að miklu leyti um traust á Geir Haarde.

Eins og staðan er núna langar Samfylkinguna varla að rugga bátnum heldur. Hin frábæra skopmynd Halldórs Baldurssonar úr Blaðinu í dag segir meira en þúsund orð.

Þar eru Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún saman í hnefaleikahring, standa bara hreyfingarlaus, en dómarinn segir við þau:

"Látið ekki svona!! Það stendur skýrt og greinilega í reglunum að þið eigið að takast á!"

Smellið á myndina og þá ætti hún að stækka.





×