Erlent

Dauðskelkaður á fyrsta klassa

Það er alltaf erfitt þegar farþegi deyr um borð, segir talsmaður British Airways.
Það er alltaf erfitt þegar farþegi deyr um borð, segir talsmaður British Airways. MYND/AP

Farþegi með flugi British Airways var illa brugðið þegar hann vaknaði eftir blund á fyrsta farrými með lík sér við hlið. Sætið var autt þegar Paul Trinder sofnaði í fluginu á leið frá Delhi á Indlandi. Konan lést á almennu farrými stuttu eftir flugtak.

Að sögn talsmanns British Airways var líkið flutt á fyrsta klassa þar sem afturhluti vélarinnar var fullsetinn.

Paul sagðist hafa tekið eftir því þegar hann vaknaði að konan hafi verið mjög föl og lasleg, runnið til í sætinu og hreyfst með hreyfingum flugvélarinnar.

Hann fékk áfall þegar áhafnarmeðlimir staðfestu að hún væri látin.

Paul greiddi tæplega hálfa milljón fyrir farmiðann á fyrsta farrými og fór fram á bætur frá flugfélaginu. Að sögn the Independent hafnaði félagið því.

Fréttastofa Ananova hefur eftir Paul að hann hafi hugsað í sífellu; „Ég greiddi tæpa hálfa milljón fyrir þetta."

Hann segir það óviðunandi að flugfólk setji lík við hlið fólks án þess að vara það við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×