Erlent

Heildargreiðslur til ESB yrðu 12 milljarðar

Heildargreiðslur íslenska ríkisins til Evrópusambandsins gætu orðið allt að tólf komma einn milljarður króna á ári ef gengið yrði í sambandið. Þetta er niðurstaða Evrópunefndar forsætisráðherra sem skilaði skýrslu sinni í vikunni.

Samkvæmt útreikningum nefndarinnar yrðu heildargreiðslur ríkissjóðs við aðild tíu og hálfur milljarður króna á ári en að hámarki tólf komma einn milljarður. Hafa beri þó í huga að stór hluti þess fjármagns fengist aftur í þjóðarbúið í styrkjum til landbúnaðar, uppbyggingarverkefna og rannsóknar- og þróunarverkefna. Þegar nefndin skoðaði nettógreiðslur með hliðsjón af greiðslubyrði Finna og Svía var niðurstaðan á bilinu tveir og hálfur til fimm milljarðar á ári. Væri Ísland hins vegar í hópi þeirra sem greiddu mest yrðu nettógreiðslur fimm til sex milljarðar.

Ekki er þó aðeins horft til kostnaðar. Í skýrslunni er könnuð þátttaka Íslendinga í nefndum og sérfræðihópum á vegum framkvæmdastjórnar ESB. EES og EFTA höfðu aðgang að starfi fjögur hundruð og átján ESB nefnda og hópa árið 2005. Ísland tók aðeins þátt í starfi hundrað áttatíu og fjögurra. Nefndin leggur til að sá réttur íslenskra fulltrúa til að sitja í og starfa á vettvangi nefnda og sérfræðingahópa verði nýttur sem best til að gæta íslenskra hagsmuna. Til þess þurfi að skapa fjárhagslegt svigrúm eins og það er orðað.

Áhrif EES-aðildar á íslenska lagasetningu var annað sem nefndin kannaði. Samkvæmt niðurstöðum hennar má rekja rúmlega fimmtung settra laga til EES. Flest lögin heyra undir viðskiptaráðuneytið en þar á eftir kemur samgönguráðuneytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×