Erlent

Fyrirtæki taki frekar þátt í öryggismálaumræðu

Ríki og alþjóðastofnanir, víða um heim, ráðfæra sig ekki í nægilega miklum mæli við fyrirtæki í einkageiranum þegar kemur að því að bregðast við öryggisógnum. Þetta segir virtur breskur sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum sem kemur í haust til starfa hjá Háskóla Íslands.

Alyson Bailes er fráfarandi forstöðumðaur SIPRI, sænsku friðarrannsóknar stofnunarinnar. Hún hefur verið ráðinn gestakennari við stjórnmálafræðiskor Háskóla Íslands til tveggja ára og hefur störf í ágúst næstkomandi. Hún mun kenna á sviði öryggis- og varnarmála í meistaranámi í alþjóðasamskiptum og BA-námi í stjórnmálafræði. Hún mun einnig vinna að rannsóknum og leiðbeina nemendum í lokaverkefnum.

Alyson hélt fyrirlestur í Háskólanum í dag þar sem hún ræddi hlutverk fyrirtækja þegar kemur að öryggi ríkis og borgara. Að hennar mati hafa ríkisstjórnir víða um heim og alþjóðastofnanir ekki haft nægilega mikið samráð við einkafyrirtæki þegar kemur að því að setja reglur og höft vegna hryðjuverka eða gruns um að óhæfuverk verði framin.

Alyson segir að í sumum tilvikum upplýsi stjórnvöld fyrirtæki ekki um breytingar sem gerðar hafi verið á reglum og ráðfæri sig nær aldrei við þau áður um til dæmis hættulega nýja tækni sem ættu að fara á gátlista - svo eitthvað sé nefnt. Hún telur að ríki eigi að ráðfæra sig meira við fyrirtæki um hvaða ógn stafi - sem dæmi hvaðan hryðjuverkamenn komi og hvað valdi deilum í ótryggum ríkjum. Á þessu svæðum séu fyrirtæki með verksmiðju, starfsemi og starfsfólk. Það fólk viti meira um ógnir en fulltrúar stjórnvalda sem kanni málin frá skrifstofum sínum og komi ekki á vettvang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×