Sport

Lewis mun ekki stíga aftur í hringinn

Lennox Lewis hefur fengið nóg af hnefaleikum og ætlar ekki að snúa aftur.
Lennox Lewis hefur fengið nóg af hnefaleikum og ætlar ekki að snúa aftur. MYND/Getty

Lennox Lewis, fyrrum heimsmeistari í hnefaleikum, hefur útilokað endurkomu í hringinn á þessu ári, en sögusagnir þess efnis fóru eins og eldur um sinu í hnefaleikaheiminum í gær. Þungavigtarkappinn fyrrverandi, sem er orðinn 41 árs að aldri, segist aldrei hafa gengið á bak orða sinna – og því ætli hann ekki að byrja á nú.

“Ég lýsti því yfir á sínum tíma að ég væri hættur og ég er vanur að standa við orð mín. Ég veit ekki hvernig svona orðrómar fara af stað en það er ekkert til í þeim. Ég er sannarlega búinn að leggja hanskana á hilluna,” sagði Lewis og tók þannig allan vafa af mögulegri endurkomu sinni.

Lewis var sagður ætla að berjast einu sinni enn gegn Úkraínumanninum Vitali Klitschko í bardaga sem yrði endurtekning frá því þegar þeir félagar áttust við í síðasta bardaga Lewis árið 2003. Þá vann sá breski fullnaðarsigur og batt enda á farsælan feril sinn með heimsmeistaratitlinum í þungavigt.

“Ég er mjög ánægður með líf mitt í augnablikinu og það er ekki rétt að ég sé fjárþurfi. Ég nýt þess að lýsa fyrir Alþjóða hnefaleikasambandið á milli þess að rækta samband mitt við börnin mín. Ég er stoltur af því sem ég afrekaði á ferlinum og ég vill ekki eyðileggja það orðspor með því að snúa aftur í hringinn.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×