Sport

Federer er að verða besti tennisleikari allra tíma

NordicPhotos/GettyImages

Tennisgoðsögnin Rod Laver, sem margir sérfræðingar kalla besta tennisleikara allra tíma, segir að Roger Federer sé kominn vel á veg með að geta kallast sá besti sem uppi hefur verið. Þetta sagði Laver eftir að hann horfði upp á Federer bursta Andy Roddick í undanúrslitunum á opna ástralska í morgun.

Federer er aðeins 25 ára gamall en hefur þegar unnið níu meistaramótstitla á ferlinum. Pete Sampras vann á sínum tíma 14 slíka, en Laver telur að Federer verði ekki lengi að slá það met ef svo fer sem horfir.

"Það lítur sannarlega út fyrir að Federer nái að slá met Pete Sampras. Hann er mikill meistari og spilar aldrei betur en í úrslitaleikjum. Þegar ég horfði á Sampras spila, man ég að ég hugsaði með mér hvort einhver gæti virkilega orðið betri en hann. Roger er ekki nema um það bil hálfnaður með ferilinn en hann sópar að sér verðlaunum og ég held að hann sé í mjög góðri stöðu til að geta brátt kallast besti tennisleikari sem uppi hefur verið," sagði Laver - en keppnisvöllurinn á opna ástralska mótinu heitir einmitt í höfuðið á honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×