Sport

Tvíhöfði í NFL í beinni á Sýn í kvöld

Öskubuskulið New Orleans Saints verður í eldlínunni í kvöld
Öskubuskulið New Orleans Saints verður í eldlínunni í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Spennan er að ná hámarki í NFL-deildinni en Super Bowl-leikurinn fer fram eftir aðeins tvær vikur. Í kvöld kemur í ljós hvaða lið mætast í úrslitaleik deildarinnar. Fyrri leikur kvöldsins er viðureign Chicago Bears og New Orleans Saints í úrslitum Ameríkudeildarinnar en leikið er á heimavelli Bears, Soldier Field.

New Orleans liðið hefur komið skemmtilega á óvart í vetur og hefur unnið hug og hjörtu Bandaríkjamanna enda hefur liðið kveikt von í brjóstum íbúa New Orleans sem hafa gengið í gegnum miklar hremmingar síðustu mánuði.

Gengi liðsins er Öskubuskusaga ársins í bandarísku íþróttalífi og margir óháðir vilja gjarna sjá liðið fara alla leið í úrslitaleikinn. Fyrir fram er búist við jafnri og spennandi viðureign en margir telja að niðurstaða leiksins muni ráðast af frammistöðu Rex Grossman, leikstjórnanda Bears, sem hefur átt mjög sveiflukennt tímabil.

Síðari leikur kvöldsins er að mati sérfræðinga mun áhugaverðari en þá tekur Indianapolis Colts, sem er leitt af besta leikstjórnanda deildarinnar Peyton Manning, á móti New England Patriots sem hefur unnið þrjá Super Bowl-leiki síðan árið 2001. Enginn leikstjórnandi í sögu NFL-deildarinnar státar af eins glæsilegum árangri í úrslitakeppninni og Tom Brady, leikstjórnandi Patriots, og það mun mikið mæða á honum í þessum leik.

Þessi lið hafa mæst í úrslitakeppninni undanfarin ár og þá hefur Patriots ávallt haft betur þó svo Colts hafi á stundum verið talið sigurstranglegra. Colts er aftur á móti á heimavelli í þessum leik og það gæti haft mikið að segja enda hefur liðinu ávallt gengið skelfilega í kuldanum í Boston. Patriots er grýla Colts-liðsins og þá grýlu þarf Colts að leggja svo liðið nái langþráðu takmarki sínu að komast í Super Bowl. Margir sérfræðingar telja að tími Colts sé loks upp runninn en hvort það sé satt kemur í ljós í beinni á Sýn í kvöld.

Leikur Chicago og New Orleans hefst klukkan 19:50 og leikur Indianapolis og New England klukkan 23:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×