Erlent

Erkibiskup Varsjár var njósnari kommúnista

Kaþólska kirkjan í Póllandi segir að erkibiskupinn í Varsjá, sem Benedikt páfi skipaði í embætti í síðasta mánuði, hefði um tuttugu ára skeið verið njósnari fyrir leyniþjónustu kommúnistastjórnar landsins. Óvíst er hvort hann verður vígður í embættið, á sunnudag.

Páfi skipaði Stanislaw Wielgus í embætti erkibiskups 6. desember síðastliðinn. Fljótlega eftir það byrjuðu fjölmiðlar að birta fréttir af því að hann hefði verið njósnari kommúnista og meðal annars gefið upplýsingar um bræður sína í Kristi. Wielgus neitaði þessum ásökunum.

Nú hefur sérstök rannsóknarnefnd kirkjunnar upplýst að nægar sannanir séu fyrir því að Wielgus hafi verið viljugur uppljóstrari leyniþjónustunnar. Fréttaskýrendur hafa kallað skipan Wielgus í embætti mestu krísu kaþólsku kirkjunnar í áratugi. Pólskt dagblað sagði að ef hann verði vígður til embættis á sunnudaginn, verði það siðferðilege hneyksli.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×