Erlent

Hefndu sín á bæjardólginum

Um 400 íbúar smábæjar á Spáni hefndu sín á bæjardólginum um hátíðarnar, með því að brenna allar eigur hans. Javier Bernui hafði búið í Villaconejos í sjö ár og íbúarnir voru orðnir þreyttir á yfirgangi hans. Hann fór oft um vopnaður hnífi eða byssu, hrinti frá sér fólki á börum og í verslunum og tók það sem honum sýndist, án þess að borga.

Á Þorláksmessu kom hann inn á eina krána, hrinti frá sér fólki og barði í barborðið. Einum gestanna var nóg boðið og sló Bernui niður. Viku seinna kom hann aftur ásamt nokkrum vinum sínum og kveikti í kránni. Bernui var þá handtekinn, en það þótti bæjarbúum ekki nóg.

Um 400 þeirra fóru að húsi hans og kveiktu í því. Þeir kveiktu einnig í tveimur bílum hans, sendiferðabíl, tveimur fjórhjólum og mótorhjóli. Lögreglan rannsakar nú málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×