Fastir pennar

Skíðahöll rísi við Úlfarsfell

Páll Baldvin Baldvinsson skrifar
Síðustu sólarhringana fyrir hátíðar taka íslenskar fjölskyldur að búa sig til skíðaferða. Þær sækja burt úr skarkalanum og halda jól undir snævi þöktum brekkum, halda hátíð ljóssins í snjóbirtu og skemmta sér hátíðardagana á skíðum. Í þeirra spor halda síðan þúsundir landa langt fram eftir vetri: leita til fjalla þar sem úrkoma og kuldi duga til að festa snjó í fjöllum. Enginn hefur tölu á utanlandsferðum til skíðaiðkunar en í lífi margra eru skíðaferðir orðnar fastur hluti tilverunnar. Og fæstir eiga þess kost að renna sér í íslenskum hlíðum. Til þess vantar snjóinn.

Á fornum skíðasvæðum hér syðra standa dýr mannvirki ónotuð stærstan hlut ársins, það er lán ef gefur snjó á þeim slóðum. Ástandið er lítið skárra fyrir vestan og norðan þar sem menn njóta meiri snjóa sem eru blessunarlega ekki aðeins farartálmi á vetrartíð heldur líka uppspretta ánægju þeim sem stunda vetrar­íþróttir.

Skíðasamband Íslands hefur kynnt vandlega útfærðar hugmyndir um uppbyggingu á aðstöðu til skíðaiðkunar árið um kring í nágrenni Reykjavíkur. Þær áætlanir eru studdar sannfærandi gögnum um mögulega aðsókn, rekstrarkostnað og skynsamlegt staðarval auk útlitsteikninga af fyrirhugaðri byggingu sem gera ráð fyrir fjórum brautum undir þaki. Kostnaður við framkvæmdina er ekki óyfirstíganlegur og með tilkomu hennar yrði aðstaða til skíðaiðkunar hér á landi gjörbreytt. Borgaryfirvöldum í Reykjavík hafa verið kynntar þessar áætlanir, raunar ættu sveitarfélög á öllu suðvesturhorninu að koma að þessari þjóðþrifaframkvæmd. Þau renna sér líka á skíðum í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og suðureftir. Aðgengi að hinu fyrirhugaða skíðasvæði nýttist öllum íbúum frá Reykjanesi og upp í Borgarfjörð. Og ekki aðeins þeim: fyrsta flokks skíðaaðstaða nýttist ferðamönnum sem hingað koma árið um kring, ekki bara þeim sem hér eru á ferðinni yfir háannatímann í ferðabransanum, heldur líka hinum sem koma hingað að vetri til, sem mættu vera fleiri miðað við þær fjárfestingar sem eru fram undan í gistirými.

Oft er talað um bága fjölskyldustefnu yfirvalda hér á landi, meðal annars í fábrotinni aðstöðu sem nýtist bæði börnum og fullorðnum í senn, saman, allt árið. Ekki er að efa að afstaða eins og Skíðasambandið leggur til bætti úr þeim skorti sem er á skemmtun fyrir alla fjölskylduna saman. Núna er skíðaíþróttin fyrir þá sem efni hafa á langdvölum á erlendum skíðasvæðum á meginlandi Evrópu og Ameríku. Hún er lúxussport.

Hér kemur margt til í rökstuðningi: það er gjaldeyrissparnaður að byggja upp góða skíðaaðstöðu undir þaki við Úlfarsfell, það mun skapa ferðamannaiðnaði í heild bætta tekjuöflun og tekjudreifingu. Þá mundi slík aðstaða gefa þeim kynslóðum sem hafa misst af skíðaiðkun vegna snjóleysis tækifæri til að kynnast hinni ljúfu skemmtun sem hafa má af hraðferð niður hlíð í góðum félagsskap fjölskyldu og vina. Því eiga yfirvöld að veita Skíðasambandi Íslands liðsinni við uppbyggingu skíðabrauta innanhúss við Úlfarsfell.





×