Fastir pennar

Dagur tónlistarinnar

Páll Baldvin Baldvinsson skrifar
Hvert getum við farið án söngs og lags? Hvert sem leitað er hljómar tónlist af einhverju tagi. Útvarpsstöðvarnar flestar byggja tilveru sína á tónlist, sjónvarp væri lítið án tónlistar þótt það sé fæst íslensk tónlist, kvikmyndin, leikhúsið og danssalirnir væru snautleg fyrirbæri án tónlistar.

Á samkomustöðum af flestu tagi er tónlist hljómandi. Jafnvel úti við má heyra tónlist úr nálægum ökutækjum, söng úr næstu húsum. Þögnin er horfin okkur, ein meginástæða þess að hingað leitar manngrúi úr þéttbýlum nálægum löndum. Tónlistin er einn meginþáttur tilveru okkar, óaðskiljanlegur hluti lífsins.

Það var ekki svo: fyrr á tímum var hún fátækleg fylgikona alþýðu, hjástöð andlegra yfirvalda og haldin frilla hjá yfirstéttinni. Nú er hún allra. Nálægð hennar býr samt við ríka fordóma, sumpart félagslega, sumpart af hjátrú. Hin svokallaða sígilda tónlist er enn talin af mörgum vera ókunnugleg. Mikill meirihluti fólks sækir ekki tónleika og þekkir ekki þann mikla og dásamlega kraft sem tónlist býr yfir. Sama fólk getur varla séð kvikmynd án þess að njóta áhrifa tónlistar af í í sígildum stíl og skilur hana þá fyrirvaralaust og nýtur til fulls.

Eins er með svokallaða framúrstefnutónlist af ýmsu tagi: sumt af henni er reyndar aftur­haldssamt stagl, annað í tón- og hljóðheimum er þess eðlis að vera unnið úr hljóðveröld sem við þekkjum úr daglegu umhverfi en umbreytt í skipan hljóðskáldsins. Þá fyrst verður það okkur torkennilegt, óárennilegt og fjarlægt.

Tónlistarlíf er í miklum blóma á Íslandi. Hér hefur myndast á nokkrum áratugum stór stétt vel menntaðs fólks sem leikur á hljóðfæri. Margt af því stundar kennslu með hljóðfæraleik. Stór hópur stjórnenda af ýmsu tagi hefur föst verkefni þótt enn skorti Sinfóníuhljómsveit Íslands metnað til að byggja upp íslenska stjórnendur og sætti sig við að hafa stjórnanda sem lítur á vinnu sína þar sem íhlaupaverk. Aragrúi tónleika af öllu tagi er í boði. Allt að daglega má sækja tónleika af einhverju tagi. Þeir eru taldir í þúsundum, og skipta þar með sér fjöldanum, tónleikar sem sinna hinni menntuðu tónlist og hinir sem sinna tónlist sem stendur nær hefð dægurtónlistar. Tónleikahaldið dreifist um landið en sætir víðast hvar sömu móttökum: Íslendingar fara of lítið á tónleika. Þeir gefa sér ekki tíma til þess, líta ekki á það sem hluta af hversdaglegri önn.

Tónlistarskólarnir hafa vaxið og dafnað í skjóli metnaðar­fullrar stefnu um rekstur þeirra en á sama tíma er tónlistarmenntun í skólum hornreka. Mikið vantar á að tónlistarmenntun sé djúpsækinn hluti af almennri menntun, eins og reyndar listiðkun yfirleitt. Það er stefnuvilla hjá stjórnvöldum að reka ekki kraftmikið tónlistarstarf í grunnskólum.

Það skilar sér; árangur íslenskra manna á erlendum vettvangi, mörkuðum og í tónleikahaldi er til kominn fyrir þvermóðsku­fullan vilja til að halda tónlistarmenntun til streitu í upphafi. Björk varð til vegna tónlistarmenntunar á unga aldri og rétt eins verður að huga að öllum þeim ungu björkum sem nú vaxa úr grasi.

Því á dagur tónlistarinnar erindi til okkar.





×