Fastir pennar

Um vélar og vélamenn

Páll Baldvin Baldvinsson skrifar
Ítarlegar fréttaskýringar í síðustu viku um afmarkaða þætti í einkavæðingu orkugeirans á Íslandi vekja fleiri spurningar en svör. Það var hárrétt hjá Hannesi Smárasyni í FL-grúppunni að greina vandamál GGE og REI svo að samrunasamningurinn stæðist þar til annað kæmi í ljós, vandi borgarstjórnar væri hik, stjórnunar- og stjórnsýsluvandi. FL-grúppan seilist leynt og ljóst inn í eignar­hald og umsýslu á jarðorku hér á landi til að geta hert sókn sína í Kína, Bandaríkjunum, Indónesíu og víðar.

Ef litið er yfir blaðaumfjöllun um einkarekstur í orku­geiranum undanfarin ár vakna ósjálfrátt grunsemdir um að þar hafi margt farið saman og hending ein ráði ekki: lög eru sett um samkeppni, hlutafélög stofnuð um orkuveitur, smærri veitur keyptar upp af stærri, hlutur sveitarfélaga í Landsvirkjun seldur á undirverði, Landsvirkjun selur hlut sinn GGE í reyndasta útrásarfyrirtækinu, Enex sem OR á enn hlut í. Samrunaferli GGE og REI er smurt með kaupréttarsamningum þannig að samningurinn er ógildur í fljótræðinu. Eins og Megas kvað: Formsatriði var ekki fullnægt.

Óþarfi er að dvelja hér við tvískinnung sjálfstæðismanna til þátttöku í einkarekstri og heldur óklára afstöðu Samfylkingarinnar - enn síður hið furðulega sjálfstæði stjórnenda OR til að hygla sjálfum sér - öll sú endaleysa hefur veikt pólitíska fulltrúa í borgarstjórn mikið og mun líklega kosta einhverja embættismenn ferilinn í opinberri þjónustu eftir stjórnsýsluúttekt. Vaknar sú spurning hvort fólk sem vasast hefur í pólitík eigi eitthvað í harðsnúna karla úr einkageiranum. Í samanburði við jaxla eins og Hannes verða blíðlyndir borgarstjórnarmenn eins og börn í höndum misindismanna: heltekin af Stokkhólmseinkenninu.

Kyndugur í öllu þessu óskýra ferli er hlutur Bjarna Ármannssonar: hann gengur úr Glitni með úttroðna vasa og hefur þá lagt línurnar um sérstaka orkudeild í þeirra húsum og bankinn sett fé í GGE, væntanlega undir vakandi auga hans. Áður en varir dúkkar hann upp í REI sem aðalfjárfestir og stendur hratt fyrir samruna við GGE sem stórir hluthafar í Glitni eiga. Það er mikil peningalykt í loftinu, fnykur, eins og þegar Geir gamli bræddi grútinn og Reykvíkingar þekkja.

Og nú hika sveitarfélögin á Suðurnesjum að nýta forkaupsrétt sinn í Hitaveitu þar. Hvar skyldu þau vera með viðskipti? Hafa bankar slík tök á sveitarstjórnum að þær verða að lúta hags­munum hluthafa bankanna í óskyldum rekstri?

Eign í íslenskum orkufyrirtækjum gefur einkafyrirtækjum forskot á erlendum mörkuðum. En þær fjárfestingar þurfa þolin­móða sjóði og getur brugðið til beggja vona. Þátttaka opinberra aðila í slíkum ævintýrum gæti veitt aðgang að þolinmóðu fjármagni með lægri ávöxtunarkröfu en heimtuð er víða annars staðar. Eru skattgreiðendur til í þá lánastarfsemi?

Kapphlaupið um einkavæðingu orkugeirans er langhlaup. Verst er að ekki er alveg ljóst hverjir er liðstjórar í keppnis­liðunum, hverjir setja takmörkin eða ráða reglunum, né hverjir eru styrktar­aðilar í því maraþoni.





×