Tónlist

Hljómsveit öfganna

Hljómsveitin Liars hefur ætíð farið sínar eigin leiðir í tónlistarsköpun og leggur áherslu á kraftmikla og hugmyndaríka sköpun öðru fremur.
Hljómsveitin Liars hefur ætíð farið sínar eigin leiðir í tónlistarsköpun og leggur áherslu á kraftmikla og hugmyndaríka sköpun öðru fremur.

Ein sérstæðasta hljómsveit nútímans, Liars, fagnar þessa dagana útkomu nýrrar breiðskífu. Steinþór Helgi Arnsteinsson lagði við hlustir og grúskaðist fyrir um sveitina.

Angus Andrew, Aaron Hemphill og Julian Gross eru mennirnir á bakvið bandarísku sveitina Liars, sem á rætur sínar að rekja til Kaliforníu þó heimahöfn hennar í dag sé New York. Sveitin hefur reyndar gengið í gegnum þó nokkrar mannabreytingar en aldrei hefur það breyst að Angus (sem er reyndar fæddur í Ástralíu) hefur verið aðaldrifkraftur og stjórnandi sveitarinnar.

Fyrsta plata Liars, They Threw Us All in a Trench and Stuck a Monument on Top, kom út árið 2001 og lenti í iðu dans-pönk senunnar sem þá grasseraði í New York. Eitthvað virðist það hafa farið í taugarnar á meðlimum Liars sem þóttust vera að gera eitthvað miklu meira skapandi, krefjandi og þróaðra en útþynnt dans-pönkið.

Stefnubreyting

Liars sýndi það svo og sannaði á næstu plötu sinni, þemaplötunni They Were Wrong, So We Drowned, árið 2004 að sveitin ætlaði ekki að vera viðriðin einhverja afmarkaða senu. Platan tók kollhnís aftur á bak frá frumburðinum, hoppaði upp í flikk flakk og sendi fyrstu plötunni loks fingurinn. Þvílík var umbreytingin.

Meðlimum sveitarinnar varð hins vegar á í messunni og platan varð alltof öfgafull. Tilraunamennskan sleppti algjörlega af sér beislinu og úr varð plata sem varla er hægt að hlusta á í einni runu. Sérstaklega mæli ég ekki með að gera slíkt í háværum heyrnatólum.

Tromman ekki dauðNæsta plata, Drum’s Not Dead, kom út í fyrra en þar feta meðlimir sveitarinnar hinn gullna meðalveg skapandi og þróaðrar tilraunamennsku með hæfilegri blöndu af öfgum. Innihaldi Drum’s Not Dead verður best lýst með nafni plötunnar og á henni fara meðlimir sveitarinnar hamförum en platan var unnin á meðan hljómsveitarmeðlimirnir bjuggu í Berlín. Drum’s Not Dead hlaut mikið lof gagnrýnenda og persónulega er ég alltaf að uppgötva betur og betur snilli hennar. Án efa með betri plötum síðasta árs. Loks orðinn lagasmiður

Nú, rétt rúmlega ári eftir útgáfu síðustu plötu, er fjórða breiðskífan komin út í Evrópu. Platan er samnefnd sveitinni og við fyrstu hlustanir virðist hún draga saman í einn sarp helstu atriði fyrri verka Liars. Hér er aftur leitað til post-pönk tímans nema í stað áhrifa frá Gang of Four og A Certain Ratio er hljómurinn meira í ætt við þyngri sveitir þess tíma og no-wave hljómsveita, sem fram komu á sjónarsviðið stuttu seinna. Til dæmis finnst mér eins og lagið What Would They Know vera eins og Joy Division að gera ábreiðu af laginu Point That Finger Somewhere Else með ný-sjálensku sveitinni The Clean. Tilraunamennskan er aldrei langt undan og eins og svo oft áður er taktur plötunnar mest megnis byggður í kringum trommuslátt. Fyrrnefndur leiðtogi, Angus Andrew, sagði reyndar nýlega að þetta væri fyrsta plata Liars þar sem honum liði eins og alvöru lagasmiði.

Merkileg plata og líklega eitt það besta sem framsækið rokk hefur alið af sér á árinu. Að lokum má hvetja alla til þess að sækja tónleika með Liars. Átakanleg upplifun sem veldur fiðringi um líkamann frá upphafi til enda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.