Bankaskjálfti í Ameríku 23. ágúst 2007 06:00 Atkvæðisréttur í þingkosningum var í öndverðu bundinn við eignir manna og fór sums staðar eftir fjölda glugga á húsum þeirra. Hugsunin var þá sú, að eignamönnum einum væri treystandi fyrir stjórnmálum. Framsókn lýðræðisins í okkar heimshluta rauf þessi tengsl milli lýðréttar og auðs með því að veita eignaleysingjum atkvæðisrétt og önnur réttindi til jafns við auðmenn. Eftir sem áður var það yfirleitt talið æskilegt, að menn ættu eignir og þær nytu verndar að lögum, því að eignamenn hefðu hag af framförum umfram eignalausa leiguliða. Eftir þessari hugsjón hefur þeim Bandaríkjamönnum, sem búa í eigin húsnæði, fjölgað úr 40 prósentum af heildinni 1930 upp í tæp 70 prósent nú og 80 prósent hér heima. Almannavaldið hefur stutt við sjálfseignarstefnuna með því til dæmis að halda úti opinberum íbúðalánasjóðum og annarri lánafyrirgreiðslu til að tryggja sem flestum aðgang að ódýrum húsnæðislánum og með því að heimila skattgreiðendum að draga vexti af húsnæðislánum frá skattskyldum tekjum. Þetta tíðkast um alla Evrópu og allan heim.Nýr markhópurUm og eftir 1990 komu bankamenn í Bandaríkjunum auga á nýjan markhóp: atvinnulaust fólk og eignalaust. Bankaflóran hafði þá breikkað í skjóli frjálslegri laga um banka og fjármálastarfsemi: þetta voru þau ár, þegar fjármálafyrirtæki tóku sér stöðu við hlið gömlu bankanna til að skáka þeim og bjóða ýmislega þjónustu, sem þeir höfðu ekki hirt um að veita. Þannig varð Kaupþing til, svo að dæmi sé tekið, og olli smám saman byltingu í íslenzkum bankarekstri meðal annars fyrir tilstilli löngu tímabærrar einkavæðingar ríkisbankanna og opinberra fjárfestingarsjóða. Nýju húsnæðislánin vestra áttu að gera fátæku fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið með því að veita því lágvaxtalán með veði í fasteignunum, sem lánin voru veitt til að kaupa. Bankarnir færðu sig upp á skaftið og tóku að veita slík lán með sérlega lágum vöxtum fyrstu tvö árin, en eftir það hækkuðu vextirnir talsvert; verðhækkun fasteignanna átti að standa undir vaxtahækkuninni. Fátæklingar bitu margir á agnið og lentu fyrirsjáanlega í vanskilum að lágvaxtatímanum loknum. Vanskilin tóku síðan að hlaða utan á sig.Í millitíðinni höfðu útsjónarsamir bankamenn búið til ýmiss konar markaðsverðbréf úr skuldbindingum fátæklinganna og blandað þeim saman við betri og tryggari bréf og selt þau fjármálastofnunum og fjárfestingarsjóðum. Þessu malli má líkja við gullgerðarlist miðalda: menn bjuggu til dýr verðbréf úr verðminni pappírum. Með tímanum kom í ljós, og hefði reyndar átt að blasa við frá byrjun, að greiðslugeta nýja markhópsins var lítil, og þá hlutu bréfin, sem höfðu að hluta verið búin til úr skuldbindingum fátæklinganna, að lækka í verði.Stíflan brast um daginn, þegar nokkrir verðbréfasjóðir, sem áttu of mikið undir slíkum bréfum, neyddust til að leggja upp laupana. Vextir í Bandaríkjunum og á heimsmarkaði hafa farið hækkandi, og íbúðarhúsnæðisverð vestra fer nú lækkandi í fyrsta skipti síðan 1991. Í Memphis í Tennessee, þar sem Elvis Presley var lagður til hinztu hvílu, þarf borgarblaðið á hverjum degi að nota tuttugu síður í stóru broti undir smáletursauglýsingar um lögtök; íbúðirnar og húsin eru síðan boðin út í kippum á tröppum dómhússins, þrjátíu eignir í hverri kippu.Sjálfsábyrgð eða samábyrgð?Bera menn ekki sjálfir ábyrgð á þeim skuldbindingum, sem þeir skrifa undir? Það má jafnan til sanns vegar færa, en þetta liggur samt ekki alveg í augum uppi. Ýmsum lögum er ætlað að vernda grunlausa kaupendur gegn óprúttnum seljendum. Samkeppnislögum er öðrum þræði ætlað að verja neytendur fyrir okrurum; fáum dettur í hug, að samkeppnislög séu óþörf, þar eð kaupendum sé í sjálfsvald sett, hvort þeir skipta við okrara.Á hinn bóginn er engin þörf fyrir sérstök lög gegn okri á samkeppnismarkaði, þar eð okrarar verða jafnan undir í frjálsri samkeppni. Ekki er þó alveg víst, að allir viðskiptavinir banka skilji til fulls muninn á nafnvöxtum og raunvöxtum og muninn á því til dæmis að taka lán í íslenzkum krónum og erlendri mynt. Viðskiptavinirnir sitja því ekki allir við sama borð og bankamennirnir. Þess vegna hafa ýmsir kallað eftir strangara eftirliti með lánveitingum bandarískra banka.Við þekkjum vandann í öðru samhengi hér heima. Í læknalögum segir: „Hvers konar skottulækningar eru bannaðar hér á landi." Þessu ákvæði er ætlað að vernda sjúklinga fyrir fúskurum. Það er áleitin spurning hér ekki síður en annars staðar, hvort fólkið í landinu þarf á sams konar lagavernd að halda vegna bankaviðskipta. Engar hömlur eru lagðar á fúsk í bifvélaviðgerðum. Einhvers staðar þarf að draga mörkin. Hvorum megin liggja bankarnir? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Atkvæðisréttur í þingkosningum var í öndverðu bundinn við eignir manna og fór sums staðar eftir fjölda glugga á húsum þeirra. Hugsunin var þá sú, að eignamönnum einum væri treystandi fyrir stjórnmálum. Framsókn lýðræðisins í okkar heimshluta rauf þessi tengsl milli lýðréttar og auðs með því að veita eignaleysingjum atkvæðisrétt og önnur réttindi til jafns við auðmenn. Eftir sem áður var það yfirleitt talið æskilegt, að menn ættu eignir og þær nytu verndar að lögum, því að eignamenn hefðu hag af framförum umfram eignalausa leiguliða. Eftir þessari hugsjón hefur þeim Bandaríkjamönnum, sem búa í eigin húsnæði, fjölgað úr 40 prósentum af heildinni 1930 upp í tæp 70 prósent nú og 80 prósent hér heima. Almannavaldið hefur stutt við sjálfseignarstefnuna með því til dæmis að halda úti opinberum íbúðalánasjóðum og annarri lánafyrirgreiðslu til að tryggja sem flestum aðgang að ódýrum húsnæðislánum og með því að heimila skattgreiðendum að draga vexti af húsnæðislánum frá skattskyldum tekjum. Þetta tíðkast um alla Evrópu og allan heim.Nýr markhópurUm og eftir 1990 komu bankamenn í Bandaríkjunum auga á nýjan markhóp: atvinnulaust fólk og eignalaust. Bankaflóran hafði þá breikkað í skjóli frjálslegri laga um banka og fjármálastarfsemi: þetta voru þau ár, þegar fjármálafyrirtæki tóku sér stöðu við hlið gömlu bankanna til að skáka þeim og bjóða ýmislega þjónustu, sem þeir höfðu ekki hirt um að veita. Þannig varð Kaupþing til, svo að dæmi sé tekið, og olli smám saman byltingu í íslenzkum bankarekstri meðal annars fyrir tilstilli löngu tímabærrar einkavæðingar ríkisbankanna og opinberra fjárfestingarsjóða. Nýju húsnæðislánin vestra áttu að gera fátæku fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið með því að veita því lágvaxtalán með veði í fasteignunum, sem lánin voru veitt til að kaupa. Bankarnir færðu sig upp á skaftið og tóku að veita slík lán með sérlega lágum vöxtum fyrstu tvö árin, en eftir það hækkuðu vextirnir talsvert; verðhækkun fasteignanna átti að standa undir vaxtahækkuninni. Fátæklingar bitu margir á agnið og lentu fyrirsjáanlega í vanskilum að lágvaxtatímanum loknum. Vanskilin tóku síðan að hlaða utan á sig.Í millitíðinni höfðu útsjónarsamir bankamenn búið til ýmiss konar markaðsverðbréf úr skuldbindingum fátæklinganna og blandað þeim saman við betri og tryggari bréf og selt þau fjármálastofnunum og fjárfestingarsjóðum. Þessu malli má líkja við gullgerðarlist miðalda: menn bjuggu til dýr verðbréf úr verðminni pappírum. Með tímanum kom í ljós, og hefði reyndar átt að blasa við frá byrjun, að greiðslugeta nýja markhópsins var lítil, og þá hlutu bréfin, sem höfðu að hluta verið búin til úr skuldbindingum fátæklinganna, að lækka í verði.Stíflan brast um daginn, þegar nokkrir verðbréfasjóðir, sem áttu of mikið undir slíkum bréfum, neyddust til að leggja upp laupana. Vextir í Bandaríkjunum og á heimsmarkaði hafa farið hækkandi, og íbúðarhúsnæðisverð vestra fer nú lækkandi í fyrsta skipti síðan 1991. Í Memphis í Tennessee, þar sem Elvis Presley var lagður til hinztu hvílu, þarf borgarblaðið á hverjum degi að nota tuttugu síður í stóru broti undir smáletursauglýsingar um lögtök; íbúðirnar og húsin eru síðan boðin út í kippum á tröppum dómhússins, þrjátíu eignir í hverri kippu.Sjálfsábyrgð eða samábyrgð?Bera menn ekki sjálfir ábyrgð á þeim skuldbindingum, sem þeir skrifa undir? Það má jafnan til sanns vegar færa, en þetta liggur samt ekki alveg í augum uppi. Ýmsum lögum er ætlað að vernda grunlausa kaupendur gegn óprúttnum seljendum. Samkeppnislögum er öðrum þræði ætlað að verja neytendur fyrir okrurum; fáum dettur í hug, að samkeppnislög séu óþörf, þar eð kaupendum sé í sjálfsvald sett, hvort þeir skipta við okrara.Á hinn bóginn er engin þörf fyrir sérstök lög gegn okri á samkeppnismarkaði, þar eð okrarar verða jafnan undir í frjálsri samkeppni. Ekki er þó alveg víst, að allir viðskiptavinir banka skilji til fulls muninn á nafnvöxtum og raunvöxtum og muninn á því til dæmis að taka lán í íslenzkum krónum og erlendri mynt. Viðskiptavinirnir sitja því ekki allir við sama borð og bankamennirnir. Þess vegna hafa ýmsir kallað eftir strangara eftirliti með lánveitingum bandarískra banka.Við þekkjum vandann í öðru samhengi hér heima. Í læknalögum segir: „Hvers konar skottulækningar eru bannaðar hér á landi." Þessu ákvæði er ætlað að vernda sjúklinga fyrir fúskurum. Það er áleitin spurning hér ekki síður en annars staðar, hvort fólkið í landinu þarf á sams konar lagavernd að halda vegna bankaviðskipta. Engar hömlur eru lagðar á fúsk í bifvélaviðgerðum. Einhvers staðar þarf að draga mörkin. Hvorum megin liggja bankarnir?