Menning

Verk Kristjáns í Gallerí Fold á menningarnótt

Kristján Davíðsson varð níræður í sumar en sýning verka hans verður í Gallerí Fold á menningarnótt.
Kristján Davíðsson varð níræður í sumar en sýning verka hans verður í Gallerí Fold á menningarnótt.

Gallerí Fold opnar sali sína upp á gátt á menningarnótt: þrjár ólíkar sýningar verða á Rauðarárstígnum og að vanda verður dagskrá allan daginn og hið vinsæla happadrætti en vinningar þetta árið eru verk eftir tvo þeirra sem sýna: Kristján Davíðsson og Harald Bilson.

Víðfeðmi menningarnætur í borginni færist þetta árið út á Granda og upp á Miklatún. Þrátt fyrir að Gallerí Fold hafi verið út úr hafa þúsundir manna komið í heimsókn á menningarnótt, þegið kaffisopa og litið á hvað er í boði. Stóru tíðindin eru þetta árið sýning á málverkum Kristjáns Davíðssonar úr safni Braga Guðlaugssonar dúklagningameistara, en hann er einn ötulasti safnari á landinu og á mikið safn verka eftir Kristján frá öllum tímum á afkastamiklum ferli meistarans. Verða á annan tug verka til sýnis úr safni Braga á menningarnótt. Þá verður sett upp stór sýning teikninga eftir Halldór Pétursson, hinn vinsæla og mikilvirka teiknara, og sýning með verkum Haralds Bilson.

Gallerí Fold þjófstartar með sýningunni á verkum Kristjáns úr safni Braga vegna níræðisafmælis Kristjáns sem var fyrir skömmu. Í vændum er stórsýning í Listasafni Íslands með vali verka frá hans langa og fjölbreytta ferli. Hann hefur lifað lengst allra málara af sinni kynslóð og tekist á við fjölbreytileg stílbrigði innan abstraktsins. Hann var hallari undir ameríska skólann í því sem þar í landi er kallað abstrakt-expressjónismi. Hefur Listasafnið auglýst eftir verkum í einkaeign til sýningarhaldsins í haust, en fram til þess geta menn svalað áhuga sínum á list Kristjáns í úrvali verka hans úr eigu Braga Guðlaugssonar í Gallerí Fold.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.