Tónlist

Það er engin leið að hætta

Trausti Júlíusson skrifar
Fjögurra diska DVD-pakkinn Biggest Bang kemur út í næstu viku.
Fjögurra diska DVD-pakkinn Biggest Bang kemur út í næstu viku.

A Bigger Bang-tónleikaferð Rolling Stones hófst með tónleikum í Boston 21. ágúst 2005 og stendur enn yfir. Hún er þegar orðin stærsta tónleikaferð rokksögunnar og sló þar með út Vertigo-túr U2. Samkvæmt Sunday Times hefur Stones-veldið hagnast um einn og hálfan milljarð punda (um 182 milljarða íslenskra króna) á tónleikahaldi síðan 1989. Það verður að teljast nokkuð gott sérstaklega í ljósi þess að hljómsveitin hefur ekki komið lagi inn á vinsældarlista í aldarfjórðung og plöturnar þeirra seljast ekki mjög mikið lengur. A Bigger Bang sem kom út 2005 og hlaut glimrandi viðtökur gagnrýnenda hefur t.d. aðeins selst í rúmlega 500 þúsund eintökum í Bandaríkjunum. Í næstu viku kemur út fjögurra diska DVD-pakki með efni frá fyrri hluta Bigger Bang-túrsins, 2005 – 2006.

Yfir sjö tímar af efni

Tónleikapakkinn heitir The Biggest Bang. Á honum eru tveir tónleikar í heild sinni; frá Zilker Park í Austin í Texas og Copacabana-ströndinni í Rio De Janeiro í Brasilíu. Auk þess eru 7-8 lög frá þremur tónleikum til viðbótar. Saitama í Japan, Shanghai í Kína og Buenos Aires í Argentínu. Það er líka heimildarmynd í fullri lengd um tónleikaferðina og að auki styttri heimildarmyndir, aukalög og viðtöl við meðlimi hljómsveitarinnar. Yfir sjö klukkutímar í heildina.



Alls eru 55 lög á diskunum fjórum og sveitin kemur víða við þó að auðvitað séu tvær útgáfur af nokkrum laganna og reyndar þrjár af Satisfaction. Það eru líka nokkur fáheyrð tökulög, þ.á.m. Learnig The Game eftir Buddy Holly, Temptations-lagið Ain’t Too Proud To Beg, Get Up, Stand Up eftir Bob Marley og Otis Redding slagarinn Mr. Pitiful. Það er nokkuð skondið að sjá þessa gömlu hunda spreyta sig á soul og reggí-tónlist og virðingarvert af þeim að heiðra snillinga eins og Marley og Otis.

Fyrstu tónleikarnir í Kína

Það er margt merkilegt við þessa tónleikaferð Stones. Sviðið er það stærsta sem byggt hefur verið fyrir tónleikaferðir. Hæðin er á við sex hæða blokk. Það er áætlað að um 2 milljónir manna hafi mætt á tónleikana á Copacabana-ströndinni sem voru ókeypis. Sveitin spilaði líka í hálfleik á Super-Bowl í febrúar 2006 sem 98 milljónir horfðu á. Tónleikarnir í Shanghai voru þeirra fyrstu í Kína, en það tók kínversk stjórnvöld 40 ár að gefa sveitinni grænt ljós. Það var þó ekki án skilyrða þar sem Stones urðu að lofa að spila ekki nokkur lög sem voru talin hættuleg æsku landsins, þ.á.m. Brown Sugar, Honkey Tonk Women og Let’s Spend The Night Together. Það er langt frá því að Stones spili alltaf sömu lögin á tónleikunum eins og algengt er á tónleikaferðum stórhljómsveita. Það er mjög mikill munur á milli tónleika og hljómsveitin æfði yfir 100 lög fyrir túrinn.



Maður getur spurt sig hvernig þeir nenni þessu. Af hverju slaka þeir ekki bara á og njóta allra milljarðanna? Svarið er augljóst þegar maður horfir The Biggest Bang. Þeir hafa bara svo helvíti gaman af þessu enn...






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.