Megavika kirkjunnar 25. júlí 2007 00:01 Mér fannst gaman að ganga til prestsins. Frásagnirnar voru mér ekki framandi, enda hafði ég sótt sunnudagaskóla í marga vetur. Eftir fermingu hélt ég áfram að velta Guði fyrir mér en aldrei tókst mér samt að finna eirð í mínum beinum í messu. Æðiberið lét á sér kræla við fyrstu tónun. Bekkjarsystir mín tók það til bragðs að bjóða mér með sér á samkomu hjá Ungu fólki með hlutverk. Mig langaði til að æla af leiðindum þótt vissulega hafi aðeins bráð af mér þegar ungur maður lagði frá sér rafmagnsbassann til að tala tungum. Svonalagað var samt ekki fyrir mig. Árin liðu og ekki minnist ég þess að hafa velt því fyrir mér hver væri sóknarkirkjan mín var fyrr en kom að því að ég vildi ganga í hjónaband. Að sjálfsögðu reyndist þó lítill vandi að komast að því og við hjónin játuðumst hvort öðru þar við hátíðlega athöfn. Síðar fæddist okkur sonur og hann létum við skíra í lítilli sveitakirkju norður í landi. Nú í vor fluttum við fjölskyldan í annað hverfi og voru stórfyrirtækin ekki lengi að fá veður af því, enda fylgjast forráðamenn Húsasmiðjunnar og BYKO vel með búferlaflutningum landsmanna. Þeir ruku strax til og skrifuðu okkur bréf þar sem þeir óskuðu okkur til hamingju með nýju íbúðina og kynntu vöruval sitt fögrum orðum. Í ljósi þess að í kirkjum landsins fara yfirleitt fram margar af merkilegustu athöfnunum í lífi okkar - þar giftumst við, skírum börnin okkar og kveðjum þá sem okkur þótti varið í - finnst mér merkilegt að þær skuli láta stórfyrirtækin ein um að bjóða nýja íbúa velkomna. Ekki væri úr vegi að kirkjan sendi nýjum sóknarbörnum svo sem eins og dulítið ljósrit þar sem henni gæfist tækifæri til að kynna sóknarpresta, messutíma og sunnudagaskóla. Með því móti gæti hún komið betur til móts við fólkið sem hún á að þjóna. Ekki getur verið að þessa þjóð vanti bara pallaefni og grill. Guðsorðið hlýtur að mega fljóta með. Hér ríkir trúfrelsi og líklega þætti mörgum kveðja frá kirkjunni óviðeigandi en það má þá bara láta hana rjúka jafnhratt í endurvinnsluna og allar megavikukynningarnar frá pizzustöðunum. Þótt ég eigi ef til vill ekki eftir að sitja á fremsta bekk í næstu messu er aldrei að vita nema einhver annar fái í þessu bréfi sóknarkirkjunnar sinnar svar við því sem hann vissi ekki einu sinni að hann hefði verið að spyrja að. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gerður Kristný Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Mér fannst gaman að ganga til prestsins. Frásagnirnar voru mér ekki framandi, enda hafði ég sótt sunnudagaskóla í marga vetur. Eftir fermingu hélt ég áfram að velta Guði fyrir mér en aldrei tókst mér samt að finna eirð í mínum beinum í messu. Æðiberið lét á sér kræla við fyrstu tónun. Bekkjarsystir mín tók það til bragðs að bjóða mér með sér á samkomu hjá Ungu fólki með hlutverk. Mig langaði til að æla af leiðindum þótt vissulega hafi aðeins bráð af mér þegar ungur maður lagði frá sér rafmagnsbassann til að tala tungum. Svonalagað var samt ekki fyrir mig. Árin liðu og ekki minnist ég þess að hafa velt því fyrir mér hver væri sóknarkirkjan mín var fyrr en kom að því að ég vildi ganga í hjónaband. Að sjálfsögðu reyndist þó lítill vandi að komast að því og við hjónin játuðumst hvort öðru þar við hátíðlega athöfn. Síðar fæddist okkur sonur og hann létum við skíra í lítilli sveitakirkju norður í landi. Nú í vor fluttum við fjölskyldan í annað hverfi og voru stórfyrirtækin ekki lengi að fá veður af því, enda fylgjast forráðamenn Húsasmiðjunnar og BYKO vel með búferlaflutningum landsmanna. Þeir ruku strax til og skrifuðu okkur bréf þar sem þeir óskuðu okkur til hamingju með nýju íbúðina og kynntu vöruval sitt fögrum orðum. Í ljósi þess að í kirkjum landsins fara yfirleitt fram margar af merkilegustu athöfnunum í lífi okkar - þar giftumst við, skírum börnin okkar og kveðjum þá sem okkur þótti varið í - finnst mér merkilegt að þær skuli láta stórfyrirtækin ein um að bjóða nýja íbúa velkomna. Ekki væri úr vegi að kirkjan sendi nýjum sóknarbörnum svo sem eins og dulítið ljósrit þar sem henni gæfist tækifæri til að kynna sóknarpresta, messutíma og sunnudagaskóla. Með því móti gæti hún komið betur til móts við fólkið sem hún á að þjóna. Ekki getur verið að þessa þjóð vanti bara pallaefni og grill. Guðsorðið hlýtur að mega fljóta með. Hér ríkir trúfrelsi og líklega þætti mörgum kveðja frá kirkjunni óviðeigandi en það má þá bara láta hana rjúka jafnhratt í endurvinnsluna og allar megavikukynningarnar frá pizzustöðunum. Þótt ég eigi ef til vill ekki eftir að sitja á fremsta bekk í næstu messu er aldrei að vita nema einhver annar fái í þessu bréfi sóknarkirkjunnar sinnar svar við því sem hann vissi ekki einu sinni að hann hefði verið að spyrja að.