Tíska og hönnun

Ungur og hæfileikaríkur hönnuður

Það eru ekki allir fimmtán ára krakkar sem geta státað af því að hafa haldið heila tískusýningu en það mun Særós Mist Hrannarsdóttir gera í dag. Sýningin fer fram í Hinu húsinu og opnar húsið klukkan tvö.

„Ég hef verið að hanna og sauma tuttugu og eitt fatasett fyrir konur. Ég er ekkert menntuð en er bara að leika mér og finnst þetta ótrúlega gaman. Fötin eru mjög mismunandi, sum í prinsessustíl en önnur meira fáguð. Ég er svolítið fyrir svona rómantískan stíl," segir Særós Mist sem hefur verið búsett í Danmörku og útskrifaðist nýlega úr dönskum grunnskóla.

 

„Í haust mun ég svo fara í einskonar Lýðháskóla og læra hönnun. Það verður gott að taka pásu frá hinu venjulega skólaumhverfi og ég hlakka mjög til að læra það sem ég hef áhuga á," segir Særós sem segist ekki ennþá eiga sér neinn uppáhalds tískuhönnuð. „Ég er svolítið hrifin af íslenskri hönnun núna, til dæmis Nakta apanum. Ég er þó lítið fyrir að fylgja einhverjum tískureglum og hef alltaf lagt áherslu á að skapa minn eigin stíl, alveg frá því ég var lítil."

særós mist hrannarsdóttir Þessi unga dama hefur hannað tuttuguogeinn alklæðnað fyrir konur og sýnir þá í Hinu Húsinu í dag.Fréttablaðið/Vilhelm
Það er greinilega kraftur í þessari hæfileikaríku ungu dömu en sýnishorn af fötum hennar má sjá á hönnunarsíðu hennar www.myspace.com/saeros_design. Fötin verða sett í almenna sölu að sýningunni lokinni í versluninni Fígúru á Skólavörðustíg. Sýningin fer fram í kjallara Hins hússins, förðunarfyrirtækið Make Up Store sér um förðun á fyrirsætunum og eru að sjálfsögðu allir velkomnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.