Eiturefnaslysið 20. júlí 2007 00:01 Ég er á gangi í dimmum undirgöngum í Laugardalnum. Það hefur orðið eiturefnaslys í sundlauginni og mengunin hefur breiðst út um dalinn. Í sýrupolli í undirgöngunum liggja þrjú börn á grúfu. Ég tek tvö þeirra upp og legg við öxl mér, rauðir blettir á höfði þeirra. Hið þriðja sýnist mér þegar látið og ég læt það því liggja, en arka af stað með hin tvö í leit að einhverjum sem getur keyrt þau á sjúkrahús og mig heim. Ég kem að skeljasandsblokk og hringi á bjöllu á fyrstu hæð en bíð ekki eftir svari og geng inn í anddyrið. Hurðirnar í blokkinni eru allar óvenju stórar og breiðar og ég geri ósjálfrátt ráð fyrir því að hér sé um að ræða fjölbýli fyrir fólk í hjólastól. Ég er við það að fara út aftur þegar dyr opnast og í gættinni stendur eiginmaður frænku minnar nokkurrar. Þau hjón reynast búa þarna á fyrstu hæð ásamt syni sínum, þrátt fyrir að ekkert þeirra sé bundið við hjólastól. Mér er boðið inn og segi farir mínar ekki sléttar. Þegar hér er komið við sögu hafa börnin tvö á óútskýranlegan hátt breyst í tvo pakka af marglitum tússpennum - en tússlitapakkarnir anda og því er ekki öll von úti enn um að börnin lifi. Ég kippi mér ekki upp við þessi hamskipti sjúklinganna en bið eiginmann frænku minnar um að keyra okkur á sjúkrahús. Þá bregður svo við að þessi elskulegi og hjálpsami maður neitar að aðstoða mig í vandræðum mínum. Hann vill ekki heldur leyfa mér að nota símann. Ég hrökklast því út aftur með tússlitabörnin, sem eru í vægast sagt mjög krítísku ástandi. Kemur þá ekki akandi móðir mín, sem annars er þekkt fyrir flest annað en ástríðu fyrir kraftmiklum bílum, á flunkunýjum sex dyra fjallabíl, þenur vélina og skransar nokkra hringi á ísilögðu bílaplaninu til að sýna mér kraftinn í nýja fjölskyldubílnum. Það er að lokum hún sem tekur að sér að koma börnunum á spítala og mér heim og leggur mér lífsreglurnar á leiðinni: Alltaf að hringja á sjúkrabíl, Kristín Svava. Alltaf að hringja á sjúkrabíl. Fjarskyldur ættingi liggur fyrir dauðanum? Ætti ég að fjárfesta í hlutabréfum? Skyldi ég varast skeggjaða menn á fullu tungli? Ef eitthvað hringir bjöllum hjá höfundi Draumaráðningabókarinnar, Þórhalli miðli eða Sigríði Klingenberg, mega þau gjarnan hafa samband hið fyrsta. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kristín Svava Tómasdóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun
Ég er á gangi í dimmum undirgöngum í Laugardalnum. Það hefur orðið eiturefnaslys í sundlauginni og mengunin hefur breiðst út um dalinn. Í sýrupolli í undirgöngunum liggja þrjú börn á grúfu. Ég tek tvö þeirra upp og legg við öxl mér, rauðir blettir á höfði þeirra. Hið þriðja sýnist mér þegar látið og ég læt það því liggja, en arka af stað með hin tvö í leit að einhverjum sem getur keyrt þau á sjúkrahús og mig heim. Ég kem að skeljasandsblokk og hringi á bjöllu á fyrstu hæð en bíð ekki eftir svari og geng inn í anddyrið. Hurðirnar í blokkinni eru allar óvenju stórar og breiðar og ég geri ósjálfrátt ráð fyrir því að hér sé um að ræða fjölbýli fyrir fólk í hjólastól. Ég er við það að fara út aftur þegar dyr opnast og í gættinni stendur eiginmaður frænku minnar nokkurrar. Þau hjón reynast búa þarna á fyrstu hæð ásamt syni sínum, þrátt fyrir að ekkert þeirra sé bundið við hjólastól. Mér er boðið inn og segi farir mínar ekki sléttar. Þegar hér er komið við sögu hafa börnin tvö á óútskýranlegan hátt breyst í tvo pakka af marglitum tússpennum - en tússlitapakkarnir anda og því er ekki öll von úti enn um að börnin lifi. Ég kippi mér ekki upp við þessi hamskipti sjúklinganna en bið eiginmann frænku minnar um að keyra okkur á sjúkrahús. Þá bregður svo við að þessi elskulegi og hjálpsami maður neitar að aðstoða mig í vandræðum mínum. Hann vill ekki heldur leyfa mér að nota símann. Ég hrökklast því út aftur með tússlitabörnin, sem eru í vægast sagt mjög krítísku ástandi. Kemur þá ekki akandi móðir mín, sem annars er þekkt fyrir flest annað en ástríðu fyrir kraftmiklum bílum, á flunkunýjum sex dyra fjallabíl, þenur vélina og skransar nokkra hringi á ísilögðu bílaplaninu til að sýna mér kraftinn í nýja fjölskyldubílnum. Það er að lokum hún sem tekur að sér að koma börnunum á spítala og mér heim og leggur mér lífsreglurnar á leiðinni: Alltaf að hringja á sjúkrabíl, Kristín Svava. Alltaf að hringja á sjúkrabíl. Fjarskyldur ættingi liggur fyrir dauðanum? Ætti ég að fjárfesta í hlutabréfum? Skyldi ég varast skeggjaða menn á fullu tungli? Ef eitthvað hringir bjöllum hjá höfundi Draumaráðningabókarinnar, Þórhalli miðli eða Sigríði Klingenberg, mega þau gjarnan hafa samband hið fyrsta.