Tónlist

Samdi nýtt stef fyrir Ríkisútvarpið

Sveinbjörn Thorarensen hefur samið nýtt auglýsingastef fyrir Ríkisútvarpið.
Sveinbjörn Thorarensen hefur samið nýtt auglýsingastef fyrir Ríkisútvarpið.
„Þetta er stef sem ég samdi síðasta sumar,“ segir Sveinbjörn Thorarensen, betur þekktur sem Hermi­gervill, sem samdi nýtt stef sem hljóma mun undir samlesnu auglýsingunum á Rás eitt og tvö.

„Ég fékk Björn Thorarensen, pabba minn til að spila á hljómborð fyrir mig. Þannig að þetta er svona feðga samvinna. Hann spilaði með Mezzo­forte í gamla daga og kemur með smá áhrif þaðan. Sjálfur spilaði ég á gítar.“

Stefið er nú þegar farið að hljóma undir auglýsingunum. Sjálfur hefur hann ekki heyrt það í útvarpinu þar sem hann er búsettur í Amsterdam um þessar mundir þar sem hann leggur stund á hljóðupptökunám.

Hermigervill segist óhræddur við að hrófla við svona rótgróinni menningarstofnun og segir að stefið sé mjög ólíkt tónlistinni sem hann gerir vanalega. Hann segir að svona stef séu tónlist sem maður eigi helst ekki að taka eftir og séu samin með það í huga.

„Ég var að reyna að ná svona „Bob James fíling“ í stefið. Það er „fusion“ djasstónlistarmaður sem er svona pínulítið ídol hjá mér. Annars var aðalmálið að gera eitthvað sem virkar í þessu samhengi.“

Aðspurður hvort hann telji að stefið eigi eftir að hljóma næstu fimmtíu árin segir hann: „Ég veit ekkert um það. Mér finnst þetta bara fyndið og á örugglega eftir að hlæja í hvert sinn sem ég heyri þetta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.