Tónlist

Spáir tveimur undankeppnum að ári

Jónatan Garðarsson spáði fyrir um yfirtöku austur-evrópskra landa á Eurovision fyrir þremur árum.
Jónatan Garðarsson spáði fyrir um yfirtöku austur-evrópskra landa á Eurovision fyrir þremur árum.

„Þetta er nákvæmlega það sem ég spáði fyrir um fyrir þremur árum,“ sagði Jónatan Garðarsson, þaulreyndur Eurovision-spekingur, um úrslitin í undankeppni Euro­vision. Mikillar óánægju hefur orðið vart bæði á Íslandi og í löndum á borð við Noreg, Danmörku og Holland, þar sem enginn keppandi frá vesturhluta Evrópu komst áfram.

„Ég var á fundi fyrir þremur árum þar sem farið var yfir fyrirhugaða forkeppni. Ég benti á að það væru allar líkur á því að þær þjóðir sem hafa mestan áhuga á keppninni, Austur-Evrópuþjóðirnar sem eru að koma nýjar inn í hana, myndu yfirtaka hana,“ sagði Jónatan. „Fólk hélt að þetta myndi jafna sig, og mér sýndist í fyrra að það væri reyndin. Skiptingin var eðlilegri þá, en núna er þetta að koma í ljós,“ sagði hann.

Að sögn Jónatans verður keppnis­fyrirkomulagi breytt á næsta ári. „Ég veit ekki betur en að það verði tvær forkepnir. Þá færu stóru löndin fjögur og sigurþjóðin í úrslitakeppnina, ásamt tíu lögum úr hvorri undankeppni. En þeir eru að vandræðast með hvernig skiptingin eigi að vera, svo sanngirni sé gætt,“ sagði hann. Einhverjir hafa mælt með því að skipt væri eftir tímabeltum, en Jónatan telur þó líklegra og jafnframt betra að dregið verði í forkeppnirnar. „Það verður að vera einhvers konar jafnvægi á milli menningarheima, eins og er núna, þó að okkur finnist það ekki atkvæðalega séð,“ sagði hann og hló við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.