Tónlist

Kvöldmessa og vorhátíð

Suðrænir tónar auðga íslenska messu Þjóðlagatónlist frá Norður-Argentínu, Bólivíu og suðrænir sálmar í síðustu kvöldmessu vetrarins.
Suðrænir tónar auðga íslenska messu Þjóðlagatónlist frá Norður-Argentínu, Bólivíu og suðrænir sálmar í síðustu kvöldmessu vetrarins.

Síðasta kvöldmessa vetrarins í Laugarneskirkju verður flutt annað kvöld að lokinni vor­hátíð safnaðarins. Þar verður flutt Misa criolla, argentínsk messa eftir Ariel Ramírez, í stað hefðbundinna messuliða og auk þess sungnir suðrænir sálmar til þess að æsa upp sumarskapið. Hildur Eir Bolladóttir prédikar og þjónar fyrir altari.

Kór Laugarneskirkju syngur undir stjórn Gunnars Gunnars­sonar organista; einsöngvarar verða Guðlaugur Viktorsson og Örn Arnarson. Tómas R. Einars­son spilar á kontrabassa, Matthías M.D. Hemstock á slagverk og Ómar Guðjónsson á gítara og mandólín. Það er tólf ára hefð fyrir slíkum kvöldmessum í Laugarneskirkju en þær byrjuðu 1995.

Í aldanna rás hefur verið vinsælt meðal tónskálda að færa messuliði klassískrar messu í fjölskrúðugri búning og gera úr þeim sjálfstæð tónverk. Hér má segja að hlutunum sé snúið við og Misa criolla notuð til að auðga hefðbundna íslenska messu og fylla hana af suðrænni angan, birtu og yl. Tónlistin við messuliðina er þjóðlagatónlist frá sveitum Norður-Argentínu og Bólivíu en sveitatónlistin sker sig að nokkru leyti frá tónlist borganna þar sem tangóinn átti mestu fylgi að fagna. Sem fyrr segir eru allir sálmar kvöldmessunnar auk þess ættaðir frá Suður-Ameríku eða hafa verið þýddir úr spænsku.

Messan hefst kl. 20.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.