Tónlist

Lífið er flóknara núna

Hreinskilinn við sjálfan sig og lífið „Stundum langar mann að borða eitthvað flókið en stundum langar mann bara í brauð með smjöri, skilurðu?“ Goran Bregovic leikur eitthvað fyrir alla á Listahátíð.
Hreinskilinn við sjálfan sig og lífið „Stundum langar mann að borða eitthvað flókið en stundum langar mann bara í brauð með smjöri, skilurðu?“ Goran Bregovic leikur eitthvað fyrir alla á Listahátíð.

Margir bíða spenntir eftir komu stórsveitar Gorans Bregovic til Íslands en sá annálaði tónsmiður og sprelligosi mun leika á Listahátíð í samvinnu við heimstónlistarhátíðina Vorblót.

Bregovic þeytist nú um heiminn en blaðamaður náði í skottið á honum í hótelsíma í Birmingham. Hann segist elska ferðalögin og tekur sérstaklega fram að honum leiðist aldrei. „Nú er ég að spila fimm mismunandi efnisskrár í mismunandi borgum,“ segir hann og bætir við að hlustendur hér fái að heyra brot af því allra besta.

Erfitt er að skilgreina tónlist Bregovic en henni hefur verið líkt við blöndu af blásaratónlist sígauna, búlg-örskum fjöltónum og vestrænu rokki og rafmagnsgíturum, auk þess sem strengjasveit og dimmraddaður fjörutíu manna karlakór kemur einnig við sögu á tónleikunum í Laugardalshöll í maí.

Konsertkokkteill

„Ég kem með stóru hljómsveitina mína og það gefur mér möguleika á að spila hvað sem ég vil,“ segir Bregovic og nefnir að hlustendur fái að heyra lög af nýjustu sólóplötunni hans „Tales and Songs from Weddings and Funerals“, sem mun líklega koma blóðinu af stað, kunnugleg stef úr kvikmyndum en hann hefur til að mynda samið músík fyrir myndir Emirs Kusturica og framsæknari tóna úr stærri hljómsveitarverkum hans.

Hann útskýrir að tónlistin sín hafi eðlilega tekið talsverðum breytingum á svo löngum ferli. „Þegar ég var yngri var ég rokkstjarna í kommúnískum heimshluta en ég er ekki á þeirri bylgjulengd lengur. Ég reyni að skrifa frá hjartanu.“ Hann líkir sköpun sinni við matarlyst. „Stundum langar mann til að borða eitthvað flókið en stundum langar mann bara í brauð með smjöri, skilurðu? Stundum langar mig að semja einfalda tónlist sem hægt er að dansa við en stundum eitthvað stærra. Nú er ég fimmtugur og ef ég vil vera hreinskilinn við sjálfan mig og lífið, sem er aðeins flóknara núna, þá sem ég aðeins margbrotnari músík.“

Vandflokkaður listamaður

Bregovic brosir að því að aðdáendur hans séu varaðir við því á heimasíðunni að á sumum tónleikum sé hann ekki bara að spila kunnuglega slagara. „Það voru einhverjir að kvarta á netinu yfir því að ég spilaði ekki bara gömlu lögin. Það er bara eðlilegt. Þegar þú ferð að sjá La Traviata áttu ekki von á einhverjum aríum úr Aidu.“

Hann segir það sé meiri vandi fyrir útgáfufyrirtækið sitt að flokka músíkina heldur en hlustendurna. „Í sumum löndum er ég stimplaður sem klassískur listamaður, í öðrum er ég poppari eða heimstónlistarmaður. Svo kemur þessi MTV-væðing og sjónvarpið inn í þetta því þar mótast ákveðin skoðun eða skilgreining. Ég seldi meira en fimm milljónir platna um allan heim á síðustu árum en ég er samt aldrei í sjónvarpinu. Fólk uppgötvar tónlistina sjálft, jafnvel skrýtnari tónskáld en mig,“ segir hann hlæjandi.

Ágeng og melódísk

Bregovic samdi tónlist fyrir fjölmargar kvikmyndir á árum áður en gerir nú minna af slíku. „Ég er fæddur í Sarajevo en var sem betur fer ekki þar þegar stríðið geisaði, þá bjó ég í París. Ég missti allt í stríðinu en var svo heppinn að fá að semja fyrir kvikmyndirnar, fyrir myndir sem ekki þurftu alvöru kvikmyndatónlist,“ segir hann glettinn.

„Ég álít mig ekki gott tónskáld fyrir kvikmyndir, tónlistin mín er dálítið of ágeng og melódísk fyrir kvikmyndirnar.“ Það bransafólk hefur samt enn eyra fyrir músík Bregovic og hljóma lög hans til dæmis í stórmyndinni um spéfuglinn Borat.

Þótt Bregovic sé fyrir löngu orðinn alþjóðleg stjarna heldur hann góðum tengslum við rætur sínar. „Ég vinn í Belgrad, ég get ekki unnið neins staðar annars staðar – ég er staðbundið tónskáld,“ áréttar hann. „Það er samt gott að sjá hversu forvitinn heimurinn er og tilbúinn að uppgötva nýja tónlist.“

Heimstónlistarhátíðin Vorblót stendur frá 17-19. maí og má nálgast upplýsingar um dagskrána á síðunni www.vorblot.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.