Tónlist

Stillur á þorra og gylltur sjór

Útskriftartónleikar Maríu Huldar Markan Sigfúsdóttur og Páls Ragnars Pálssonar verða í Fríkirkjunni í kvöld.
Útskriftartónleikar Maríu Huldar Markan Sigfúsdóttur og Páls Ragnars Pálssonar verða í Fríkirkjunni í kvöld.

María Huld Markan Sigfúsdóttir og Páll Ragnar Pálsson hafa verið virk í tónlistarlífi hérlendis um árabil en nú fá hlustendur að kynnast verkum þeirra í nýju samhengi.

Á tónleikum í Fríkirkjunni í kvöld verða flutt útskriftarverkefni þeirra frá tónsmíðadeild Listaháskóla Íslands.

María hefur starfað með kvartettinum amiinu og leikið með Sigur Rós en Páll Ragnar er vel kunnur af spilamennsku sinni með hljómsveitunum Maus og Fræ.

Páll Ragnar semur verk fyrir flautu, klarínett, trompet, horn, túbu, píanó, selló og kontrabassa sem heitir því líflega nafni „Bleikur himinn, fjólublátt fjall, gylltur sjór“. Hughrif verksins eru sótt beint í hans nánasta umhverfi en hann kveðst ekki vilja láta of mikið með innblásturinn til að lita ekki viðtökurnar. Hann frábiður sér einnig allan flokkadrátt og stimplun. „Ef það þarf endilega að troða manni ofan í einhver hólf vildi ég gjarnan vera í kassanum þar sem tónskáldin eru sem skrifa skemmtilega tónlist,“ grínar hann. Hann viðurkennir síðar að bassaleikarinn sinn hafi líkt sér við neo-impressjónista. Páll Ragnar hyggur á frekara tónsmíðanám í framtíðinni og ku vera kominn með annan fótinn til Eistlands.

María Huld rekur aðdraganda verks síns, „Þorra“, til veru sinnar á Bretlandi þar sem hún dvaldist í skiptinámi í tónsmíðum. „Ég var þar í janúar og þá var allt frekar grátt og þumbaralegt. Þegar mér gafst tækifæri til að semja verk fyrir kammerhóp sem kom til skólans langaði mig að gera verk sem myndi minna á ískalda birtu norðursins, þorrann hérna heima.“ Hún útskýrir að ísköld birta og ljúfsár melankólía gangi í gegnum verkið. Það er skrifað fyrir strengjakavartett, marimbu og sög en síðastnefnda hljóðfærið er til að mynda notað til að undirstrika stálkaldan veturinn.

Bæði segjast þau eiga sér ýmis draumaverkefni í tónsmíðunum sem gaman væri að fást við í framtíðinni. „Nú er meginmarkmið mitt bara að klára skólann og fara í smá sumarfrí,“ segir María Huld en hún er nýkomin úr afar vellukkuðu tónleikaferðalagi hljómsveitarinnar Amiinu um Bandaríkin þar sem hljómsveitin kynnti sína fyrstu beiðskífu, Kurr, sem er væntanleg í júní. Fékk hljómsveitin dúndrandi viðtökur og dóma í þarlendum blöðum og er stefnan síðan tekin á Evrópu nú í maí en eftir að Kurr kemur út mun hljómsveitin síðan „kemba veröldina“ og kynna hana frekar.

„Draumaverkefni framtíðarinnar er að semja stóran og mikinn strengjakvartett,“ segir María Huld. „Ég held mjög mikið upp á það form. Það er eiginlega hin fullkomna hljóðfæraskipan,“ segir hún og bætir við hlæjandi að máski nái hún aldrei að semja „hinn fullkomna strengjakvartett“ en það sé í það minnsta draumurinn.

Tónleikarnir í kvöld hefjast kl. 20.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.