Spilling áfram – ekkert stopp 30. apríl 2007 05:30 Landsvirkjun er frá því um áramót að öllu leyti í eigu ríkisins og fer fjármálaráðherra nú með eignarhlutinn en ekki iðnaðarráðherra eins og áður var. Engu að síður er í gildi samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna um að Framsóknarflokkurinn ráðstafi stjórnarformannssætinu í Landsvirkjun." Svo sagði í frétt um stjórnarformannsskiptin í Landsvirkjun. Hvað höfum við ekki heyrt þetta oft? Framsókn á þennan stól. Framsókn á helminginn af bitlingum hins opinbera. Átján prósent flokkur (sem nú mælist tíu prósent) á helminginn af íslenska ríkinu. Gamla helmingaskiptingakerfið er enn við lýði. Samt er ekki árið 1957 heldur 2007. Það er enn sem áður var. Hæfileikar manna og reynsla skipta litlu, flokksskírteinið öllu. Svo kvarta Framsóknarmenn yfir því að flokkur þeirra sé uppnefndur „vinnumiðlun". Í stjórnarformennskuembætti eins stærsta fyrirtækis landsins er ráðinn guðfræðimenntaður maður sem verið hefur aðstoðarmaður ráðherra og „bæjarritari í Kópavogi". Hvers á bæjarritarinn í Hafnarfirði að gjalda? Er hann kannski næsti stjórnarformaður Actavis? Hér er settur í stjórnarstól maður sem var orðinn óþægur innan flokks, maður sem var farinn að stofna heilu kvenfélögin sér til stuðnings. Til að tryggja Framsóknarkonum í Kópavogi sæmilegan símafrið verður sjálf Landsvirkjun að gera sér guðfræðing að góðu. Innanhússvandræði á vinnumiðluninni eru tekin fram yfir hagsmuni ríkisins. Og nú eru síðustu forvöð að leysa þau mál, því ekki er alveg öruggt að helmingaskiptareglan lifi fram yfir kjördag. „Ég verð að segja það sem framsóknarmaður að ég bókstaflega treysti engum manni betur en Páli Magnússyni til þess að standa vörð um þá ályktun flokksþingsins að orkufyrirtæki ríkisins verði áfram í eigu almennings á næstu árum," skrifar Framsóknarbloggarinn. Með aðstoð þýðingaforrits hljómar setningin svona: „Ég verð að segja það sem framsóknarmaður að ég bókstaflega treysti engum manni betur en Páli Magnússyni til þess að standa vörð um þá ályktun flokksþingsins að stjórnarformannsstóllinn í Landsvirkjun verði áfram í eigu Framsóknarflokksins á næstu árum." Framsóknarmenn hugsa fyrst um flokkinn, svo um landið. Fyrst um sjálfa sig, svo um þjóðina. Vinnumiðlunarhugsjónin er svo sterk í þeim að þeir láta hana ganga fyrir öllu; jafnvel korteri fyrir kosningar hika þeir ekki við að sýna kjósendum fingurinn ef það skyldi verða til að koma góðum manni í gott starf. Framsóknarmenn eru svo langt leiddir í spillingunni að þeir taka hana jafnvel fram yfir sjálfa kosningabaráttuna. Enda vanir því að geta treyst á fyrirgefningu íslenskra kjósenda. Það lýsir vel íslensku samfélagi að ekki einn fjölmiðill hafi gert athugasemd við skipan nýja stjórnarformannsins. Menn eru jafn vanir því og norðanáttinni að Framsóknarflokkurinn ráðstafi þessum stól sem fleirum til sinna sauðtryggu sveina. Gaman hefði verið að heyra spurninguna „og hver eru helstu skilyrðin sem þú þurftir að uppfylla fyrir starfið?" Það lýsir einnig vel íslensku samfélagi að varla nokkur fölmiðill skuli hafa tekið upp frétt Kastljóssins um veitingu ríkisborgararéttar til tengdadóttur umhverfisráðherra. Og jafnvel ekki eftir að Framsóknarráðherrann mætti til viðtals í þættinum og viðhafði þann mesta ráðherrahroka sem sést hefur í íslensku sjónvarpi. Hún toppaði jafnvel gamla Davíðshrokann þegar hún hellti sér yfir fréttamanninn með óbótaskömmum í beinni útsendingu. Annað eins hefur ekki sést. En því var aðeins mætt með þögninni einni. Of óþægilegt fyrir litla sæta samfélagið. Því miður verður ekki annað séð en að veiting ríkisborgararéttar til umræddrar stúlku sé umdeilanleg. Að minnsta kosti er erfitt að verja hana gagnvart öllu því fólki sem beðið hefur land- og vegalaust í fjölda ára eftir sínum íslenska passa, og bíður sumt enn. Meira að segja sjálf forsetafrúin þurfti að bíða í þrjú ár og er hún þó gift Íslendingi. Sjálfur þekki ég til fólks sem ekki fékk slíkan glaðning fyrr en nýverið, eftir að hafa búið hér í fjögur ár og eignast hér tvö börn. Fjórar manneskjur í fjögur ár, á milli vonar og ótta. Í fréttatímum hafa svo fylgt frásagnir af heilu fjölskyldunum sem sátu hér passalausar í landgíslingu allt upp í sjö ár. Annað gildir hins vegar þegar maður er tengdur ráðherra sem þar til nýlega sat í nefndinni sem úthlutar vegabréfunum. Sami ráðherra greiddi síðan atkvæði á hinu háa Alþingi með veitingu ríkisborgararéttarins, greiddi sem sagt atkvæði með því að kærasta sonar síns fengi að fara framfyrir í röðinni. Sá gjörningur einn á að nægja til afsagnar. En þetta kallar Framsóknarkonan bara „dylgjur" sem eru „særandi fyrir mína fjölskyldu". Framsóknarmennskan er blind á eigin gjörðir, blind á eigin spillingu. Þess vegna getur hún óhikandi lofað kjósendum: „Spilling áfram - ekkert stopp." Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hallgrímur Helgason Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Landsvirkjun er frá því um áramót að öllu leyti í eigu ríkisins og fer fjármálaráðherra nú með eignarhlutinn en ekki iðnaðarráðherra eins og áður var. Engu að síður er í gildi samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna um að Framsóknarflokkurinn ráðstafi stjórnarformannssætinu í Landsvirkjun." Svo sagði í frétt um stjórnarformannsskiptin í Landsvirkjun. Hvað höfum við ekki heyrt þetta oft? Framsókn á þennan stól. Framsókn á helminginn af bitlingum hins opinbera. Átján prósent flokkur (sem nú mælist tíu prósent) á helminginn af íslenska ríkinu. Gamla helmingaskiptingakerfið er enn við lýði. Samt er ekki árið 1957 heldur 2007. Það er enn sem áður var. Hæfileikar manna og reynsla skipta litlu, flokksskírteinið öllu. Svo kvarta Framsóknarmenn yfir því að flokkur þeirra sé uppnefndur „vinnumiðlun". Í stjórnarformennskuembætti eins stærsta fyrirtækis landsins er ráðinn guðfræðimenntaður maður sem verið hefur aðstoðarmaður ráðherra og „bæjarritari í Kópavogi". Hvers á bæjarritarinn í Hafnarfirði að gjalda? Er hann kannski næsti stjórnarformaður Actavis? Hér er settur í stjórnarstól maður sem var orðinn óþægur innan flokks, maður sem var farinn að stofna heilu kvenfélögin sér til stuðnings. Til að tryggja Framsóknarkonum í Kópavogi sæmilegan símafrið verður sjálf Landsvirkjun að gera sér guðfræðing að góðu. Innanhússvandræði á vinnumiðluninni eru tekin fram yfir hagsmuni ríkisins. Og nú eru síðustu forvöð að leysa þau mál, því ekki er alveg öruggt að helmingaskiptareglan lifi fram yfir kjördag. „Ég verð að segja það sem framsóknarmaður að ég bókstaflega treysti engum manni betur en Páli Magnússyni til þess að standa vörð um þá ályktun flokksþingsins að orkufyrirtæki ríkisins verði áfram í eigu almennings á næstu árum," skrifar Framsóknarbloggarinn. Með aðstoð þýðingaforrits hljómar setningin svona: „Ég verð að segja það sem framsóknarmaður að ég bókstaflega treysti engum manni betur en Páli Magnússyni til þess að standa vörð um þá ályktun flokksþingsins að stjórnarformannsstóllinn í Landsvirkjun verði áfram í eigu Framsóknarflokksins á næstu árum." Framsóknarmenn hugsa fyrst um flokkinn, svo um landið. Fyrst um sjálfa sig, svo um þjóðina. Vinnumiðlunarhugsjónin er svo sterk í þeim að þeir láta hana ganga fyrir öllu; jafnvel korteri fyrir kosningar hika þeir ekki við að sýna kjósendum fingurinn ef það skyldi verða til að koma góðum manni í gott starf. Framsóknarmenn eru svo langt leiddir í spillingunni að þeir taka hana jafnvel fram yfir sjálfa kosningabaráttuna. Enda vanir því að geta treyst á fyrirgefningu íslenskra kjósenda. Það lýsir vel íslensku samfélagi að ekki einn fjölmiðill hafi gert athugasemd við skipan nýja stjórnarformannsins. Menn eru jafn vanir því og norðanáttinni að Framsóknarflokkurinn ráðstafi þessum stól sem fleirum til sinna sauðtryggu sveina. Gaman hefði verið að heyra spurninguna „og hver eru helstu skilyrðin sem þú þurftir að uppfylla fyrir starfið?" Það lýsir einnig vel íslensku samfélagi að varla nokkur fölmiðill skuli hafa tekið upp frétt Kastljóssins um veitingu ríkisborgararéttar til tengdadóttur umhverfisráðherra. Og jafnvel ekki eftir að Framsóknarráðherrann mætti til viðtals í þættinum og viðhafði þann mesta ráðherrahroka sem sést hefur í íslensku sjónvarpi. Hún toppaði jafnvel gamla Davíðshrokann þegar hún hellti sér yfir fréttamanninn með óbótaskömmum í beinni útsendingu. Annað eins hefur ekki sést. En því var aðeins mætt með þögninni einni. Of óþægilegt fyrir litla sæta samfélagið. Því miður verður ekki annað séð en að veiting ríkisborgararéttar til umræddrar stúlku sé umdeilanleg. Að minnsta kosti er erfitt að verja hana gagnvart öllu því fólki sem beðið hefur land- og vegalaust í fjölda ára eftir sínum íslenska passa, og bíður sumt enn. Meira að segja sjálf forsetafrúin þurfti að bíða í þrjú ár og er hún þó gift Íslendingi. Sjálfur þekki ég til fólks sem ekki fékk slíkan glaðning fyrr en nýverið, eftir að hafa búið hér í fjögur ár og eignast hér tvö börn. Fjórar manneskjur í fjögur ár, á milli vonar og ótta. Í fréttatímum hafa svo fylgt frásagnir af heilu fjölskyldunum sem sátu hér passalausar í landgíslingu allt upp í sjö ár. Annað gildir hins vegar þegar maður er tengdur ráðherra sem þar til nýlega sat í nefndinni sem úthlutar vegabréfunum. Sami ráðherra greiddi síðan atkvæði á hinu háa Alþingi með veitingu ríkisborgararéttarins, greiddi sem sagt atkvæði með því að kærasta sonar síns fengi að fara framfyrir í röðinni. Sá gjörningur einn á að nægja til afsagnar. En þetta kallar Framsóknarkonan bara „dylgjur" sem eru „særandi fyrir mína fjölskyldu". Framsóknarmennskan er blind á eigin gjörðir, blind á eigin spillingu. Þess vegna getur hún óhikandi lofað kjósendum: „Spilling áfram - ekkert stopp."