Tónlist

Deerhoof: Friend Opportunity -fjórar stjörnur

Deerhoof heldur áfram að koma á óvart á enn einni plötunni. Stórfengleg sveit.
Deerhoof heldur áfram að koma á óvart á enn einni plötunni. Stórfengleg sveit.

The Runners Four með Deerhoof var án ef ein af bestu plötum ársins 2005 og var mun sykursætari en fyrri verk hljómsveitarinnar. Á Friend Opportunity hljómar Deerhoof mun líkari því sem hún gerði fyrir The Runners Four en poppið heldur þó áfram að vera nokkuð ríkjandi. Hér er samt ekki um að ræða eitthvað einn, tveir, þrír tyggjókúlu popp, heldur rokkað, vel framsækið og dýrslegt popp.

Það hljóta samt að vera skiptar skoðanir um hvort flokka eigi Deerhoof í popp eða rokk eða yfirleitt einhvern flokk yfir höfuð. Mér finnst best að kalla þetta hávaðapopp en hverjum er ekki sama? Tónlist Deerhoof er fjölbreytt, jafnvel enn þann dag í dag, þrátt fyrir að Friend Opportunity sé áttunda plata Deerhoof í fullri lengd. En það er kannski það sem heillar mest við Deerhoof, maður veit í raun aldrei á hverju maður á von.

Friend Opportunity er reyndar fyrsta plata Deerhoof sem tríós en tríóið virðist ekki mikið sakna fjórða mannsins. Trommuleikarinn Greg Saunier heldur áfram að galdra fram magnþrunginn trommuslátt, söngur hinnar japönsku Satomi Matsuzaki heldur áfram að vera jafn ferlega seyðandi og John Dieterich er alltaf jafn svalur á gítarnum. Fyrsta lagið, The Perfect Me, sýnir kannski best hversu uggvænlega þétt sveitin er. The Galaxist, Matchbook Seeks Maniac og Cast of Crown eru síðan aðrir hápunktar plötunnar.

Þrátt fyrir að þessi plata sé mun tilraunakenndari en The Runners Four nær Deerhoof alltaf að halda sig innan siðlegra marka. Hver tónn er gildishlaðinn þó mörg viðmið séu brotin en sveitin nær þó ekki að framkalla eins grípandi plötu og The Runners Four var. Friend Opportunity reynir vissulega á hlustandann en skilur mikið eftir sig.

Steinþór Helgi Arnsteinsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.