Menning

Á mörkunum

Hvað er satt? Ljósmyndir Sari Poijärvi verða til sýnis í Grófarhúsinu og hjá A/A á Hverfisgötu.
Hvað er satt? Ljósmyndir Sari Poijärvi verða til sýnis í Grófarhúsinu og hjá A/A á Hverfisgötu.

Finnski ljósmyndarinn Sari Poijärvi opnar sýningu sína „Photo-graphic Work“ í Skotinu í anddyri Ljósmyndasafns Reykjavíkur kl. 17 í dag.

Sari er með meistaragráðu í myndlist og hefur haldið fjölda einka- og samsýninga víða um lönd. Í september árið 2005 dvaldi hún í gestaíbúð SÍM í Reykjavík og á því tímabili tók hún mikið af myndum sem margar hverjar er að finna á sýningunni í Skotinu.

Sari lýsir verkum sínum sem vega salt á mörkum raunveruleika og skáldskapar. „Þessi samsetning tekur svo á sig hin ýmsu form í mismunandi verkum – stundum er 80 prósent raunveruleiki, stundum aðeins 10 prósent. Eftir að ég hef tekið mynd velti ég því alltaf fyrir mér hvað hún leiðir af sér. Er það leynd, ráðgáta eða galdrar sem fönguðu athygli mína? Frá árdögum ljósmyndunar hefur ljósmyndarinn reynt að sveigja til raunveruleikann og ég lít á mig sem hlekk í þeirri löngu keðju í sögunni,“ segir listakonan.

Sýningin í Grófarhúsinu stendur til 9. maí en á morgun verður einnig opnuð sýning á verkum Sari í A/A Galleríi á Hverfisgötu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.