Tónlist

Galdrakarlar, tröll og krakkar

 Í vikunni hefur fjöldi grunnskólabarna heimsótt Sinfóníuhljómsveit Íslands og kynnt sér starf hennar.
Í vikunni hefur fjöldi grunnskólabarna heimsótt Sinfóníuhljómsveit Íslands og kynnt sér starf hennar. MYND/Valli

Á morgun kl. 15 er komið að árlegum fjölskyldutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói en þá verður lokið upp dyrum að ævintýralegum heimi trölla, galdrakarla og annarra kynjavera.

Strákústar taka upp á því að dansa eftir misheppnaða galdratilraun lærisveins, Dimmalimm leikur á flautu, uglan hans Harry Potter tekur flugið, næturdrottningin syngur aríu og galdramaður af Ströndum mun kveða niður draug.

Stjórnandi á tónleikunum er Bernharður Wilkinson en með sveitinni koma einnig fram ungur flautuleikari, Björg Brjánsdóttir, sem er aðeins tæplega 14 ára gömul en kemur nú í annað sinn fram með hljómsveitinni. Auk þess syngur Guðrún Ingimarsdóttir sópransöngkona aríu Næturdrottningarinnar eftir Mozart. Kynnir á tónleikunum er kamelljónið Skúli Gautason.

Síðdegis á morgun heldur kammertónleikaröð Sinfóníunnar, sem kennd er við Kristal, áfram í Listasafni Íslands. Í eldlínunni á morgun verða Sigurgeir Agnarsson sellóleikari, Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari. Á efnisskránni eru Píanótríó eftir Ludwig van Beethoven, Metamorphoses fyrir píanótríó eftir Hafliða Hallgrímsson og Tríó í G-dúr fyrir píanó, fiðlu og selló eftir Claude Debussy. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 17.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.