Tónlist

Íslenskur blús í Kína

„Kínverjar hafa ekki kynnst blúsnum að ráði en eru þó hrifnir af honum, sérstaklega hér í Sjanghæ sem er hliðið að umheiminum í þessum efnum," segir tónlistarmaðurinn KK.

Þeir Magnús Eiríksson hafa dvalið ásamt Óttari Felix Haukssyni útgefanda í Sjanghæ í Kína undanfarið við upptökur á nýrri plötu, sem gefin verður út þar í landi sem og á Íslandi í sumar.

Í kvöld troða þeir upp á tónleikum undir yfirskriftinni Kveðja frá Íslandi. KK og Magnús voru að stilla saman strengi sína þegar Fréttablaðið truflaði þá. „Ár svínsins gekk í garð hér í landi fyrir skemmstu og nýárshátíðin stendur yfir fram á sunnudag," segir KK. „Við vorum fengnir til að spila á tónleikum í Borgarleikhúsinu í Sjanghæ í tilefni af hátíðarhöldunum og ætlum að bjóða upp alls kyns blús og tökum mikið af lögum eftir okkur sjálfa. Bæði platan og tónleikarnir hafa átt sér langan aðdraganda og það er gaman að þetta er að verða að raunveruleika."

KK er ekki alls ókunnugur Kína, því þetta er í þriðja sinn sem hann heimsækir landið. „Ég fór fyrst til Peking árið 1999 og fyrir hálfu öðru ári kom ég fram á listahátíð hér í Sjanghæ. Það hafa engar smá breytingar átt sér stað á þessum stutta tíma, þetta er orðin ein öflugasta þjóð í heimi."

Tónleikar KK og Magnúsar hafa vakið athygli fjölmiðla í Sjanghæ, fjórar sjónvarpsstöðvar og níu dagblöð hafa fjallað um þá, til dæmis birtist viðtal við KK í dagblaðinu Shanghai Daily, þar sem honum er lýst sem „endurrreisnarmanni blústónlistarinnar". „Okkur hefur verið tekið afskaplega vel," segir blúsarinn. „Okkur var til dæmis boðið í siglingu eftir fallegri á í grennd við borgina.

Um borð fengum við meðal annars ljúffengan mat en vorum frekar lengi að borða og frekar en að senda okkur í land án þess að klára matinn var bátnum bara snúið við og tekinn aukahringur. Okkur líður eins og kóngafólki hér."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.