Menning

Listir allra álfa

Ungir og áhugasamir listunnendur geta kynnt sér framandi menningu í Breiðholtinu í dag.
Ungir og áhugasamir listunnendur geta kynnt sér framandi menningu í Breiðholtinu í dag. MYND/Pjetur

Heimsdegi barna verður fagnað í þriðja sinn í dag en þá geta börn og unglingar komist í kynni við framandi menningu frá öllum heimsálfum í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi og félagsmiðstöðinni Miðbergi. Heimsdagur barna er liður í Vetrarhátíð í Reykjavík sem er samvinnuverkefni Höfuðborgarstofu, Alþjóðahússins, Kramhússins og fyrrgreindra aðila.

Þar verða skipulagðar fjölbreyttar og spennandi listasmiðjur sem verða opnar milli 14 og 17 en að þeim loknum verður afraksturinn til sýnis í samkomusal hússins. Á staðnum geta forvitnir ungir gestir til dæmis kynnt sér uppruna hljóðfærisins didgeridoo, lært um rapp og rímur, fræðst um mörgæsir og Bollywood-myndir og arabíska skrift auk þess sem boðið verður upp á kennslu í krumpdansi sem er með afbrigðum forvitnilegur dansstíll.

Auk smiðjanna verða ýmsar uppákomur í anddyri Gerðubergs og eitthvað að gerast í hverju einasta skúmaskoti húsanna en nánari upplýsingar um dagskrána má finna á heimasíðunni www.gerduberg.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.