Erlent

Eþíópískir hermenn nálgast Mogadishu

Eþíópískar hersveitir eru farnar að nálgast höfuðborg Sómalíu, Mogadishu, og gætu náð henni á sitt vald á næstu 48 klukkustundum en þetta sagði talsmaður Sómalíustjórnar rétt í þessu. Sómalska stjórnin hefur einnig heitið að gefa leiðtogum uppreisnarmanna upp sakir gefist þeir friðsamlega upp.

Síðastliðna daga hafa nágrannarnir í Eþíópíu blandað sér með beinum hætti í átökin, meðal annars með því að varpa sprengjum á búðir uppreisnarmannanna. Í gær tóku svo uppreisnarmennirnir að hörfa undan sveitum stjórnarhersins og eþíópískum herdeildum. Vonast Eþíópía til þess að stríðið verði stutt og að fullnaðarsigur eigi eftir að vinnast bráðlega.

Leiðtogar uppreisnarmanna gefa þó lítið fyrir yfirlýsingar Eþíópíumanna og segja afturhald sitt skipulagt og þá vera að búa sig undir langvinnt stríð sem mundi einkennast af skæruhernaði og hryðjuverkum.

Fulltrúar bandalaga Araba- og Afríkuríkja ætla að hittast á morgun og ræða leiðir til að koma á friði í Sómalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×