Erlent

Grunaður um morð á 5 vændiskonum

Breska lögreglan handtók í dag 37 ára karlmann sem grunaður er um að hafa myrt 5 vændiskonur í Suðaustur-Englandi. Morðingjans hefur verið leitað síðan í síðustu viku og rannsóknin er ein sú viðamesta í Bretlandi um áraraðir.

Það var í morgun sem lögreglan í Suffolk greindi frá því að maður hefði verið handtekinn vegna málsins. Stewart Gull, yfirlögregluþjónn, sagði á blaðamannafundi að lögregla hefði handtekið 37 ára karlmann á heimili sínu í Trimley nærri Felixstowe. Hann væri grunaður um að hafa myrt allar konurnar fimm.

Lögregla hefur ekki viljað greina frá nafni mannsins, en breskir fjölmiðlar hafa gert það og birt myndir af honum. Breska blaðið Sunday Mirror birti í gær viðtal við manninn, Tom Stephens, þar sem hann segir að hann hafi þekkt allar konurnar fimm og hafi enga fjarvistarsönnun í málinu. Stephens mun hafa skilið við konu sína fyrir nokkru síðan og leitað eftir þjónustu vændiskvenna í Ipswich. Lögregla hafði yfirheyrt hann og gert húsleit heima hjá honum áður en blaðamaður Mirror náði tali af honum.

Nágrannar Stephens eru slegnir vegna málsins. Grunur leikur einnig á að Stephens tengist morði á sautján ára stúlku í smábæ nærri Ipswich fyrir sjö árum. Lögregla hefur þó ekki viljað staðfesta það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×