Erlent

Tuttugu trúarbragðaglæpir á mánuði í Danmörku

Danska lögreglan segir að þar í landi séu framin tuttugu afbrot í mánuði, sem eru trúarlegs eðlis, allt frá heiðursmorðum til ýmiskonar þvingana. Óttast er að ungar konur séu neyddar til þess að fremja sjálfsmorð. Danir hafa af þessu áhyggjur, en tölurnar koma ekki á óvart.

Félagsmálaráðherra Danmerkur skipaði lögreglunni, í sumar, að telja afbrot sem væru af trúarlegum uppruna. Ástæðan fyrir þessari tilskipun voru meðal annars óútskýranleg sjálfsmorð ungra kvenna. Lögreglan taldi sig hafa heimildir fyrir því að þær væru neyddar til þess að fremja sjálfsmorð, annars myndu fjölskyldumeðlimir myrða þær.

Það kvað svo rammt að þessu að ungu stúlkurnar fengu nafn; þær voru kallaðar "svalastúlkurnar," vegna þess að þær frömdu oft sjálfsmorð með því að stökkva fram af svölum.

Fjöldi brotanna kemur ráðgjöfum minnihlutahópa ekki á óvart. Manu Sareen, sem er slíkur ráðgjafi og á sæti í borgarstjórn Kaupmannahafnar, segir að ástandið sé stöðugt að versna. Meðal yfirstétta minnihlutahópa sé jöfnuður kynjanna að að aukast. Meðal þeirra sem séu lægra í þjóðfélagsstiganum sé ástandið hinsvegar að versna.

Foreldrarnir krefjist þess að börnin lifi í samræmi við hugsjónir þeirra og hefðir. Það vilji börnin ekki og því séu þau beitt refsiaðgerðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×