Erlent

Reyna að koma í veg fyrir loftárás Ísraelshers

Palestínskar stúlkur standa uppi á svölum á húsi Hamas-liðans Waels Rajabs í Beit Lahiya í dag til að reyna að koma í veg fyrir loftárás Ísraelshers.
Palestínskar stúlkur standa uppi á svölum á húsi Hamas-liðans Waels Rajabs í Beit Lahiya í dag til að reyna að koma í veg fyrir loftárás Ísraelshers. MYND/AP

Fjöldi Palestínumanna safnaðist saman á og við hús háttsetts Hamas-liða í Beit Lahiya norðarlega á Gasaströndinni í dag vegna fregna af því að Ísraelsher hygðist gera loftárás á húsið. Fram kemur á fréttavef BBC að Hamas-liðinn Wael Rajab hafi haft spurnir af því að Ísraelar hygðust ráðast á húsið og var kallað eftir sjálboðaliðum til að verja húsið í moskum á Gasa í dag.

Ísraelsher varar oft við loftárásum skömmu áður en þær hefjast til þess að draga úr mannfalli en Palestínumenn hafa nú tvisvar á þremur dögum safnast saman við hús þar sem talið er að Ísraelar ætli að ráða af dögum herskáa leiðtoga úr röðum Hamas. Ísraelsher hefur staðið á bak við fjölmargar árásir á Gasa og Vesturbakkanum frá því í sumar þegar ísraelskum hermanni var rænt og hafa um 400 Palestínumenn fallið í þeim árásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×