Tónlist

Útgáfutónleikar Lay Low

Forsala hefst laugardaginn 18. nóvember kl. 12:00 í verslunum Skífunnar og á www.midi.is

Frumburður tónlistarkonunnar Lovísu eða Lay Low einsog hún kýs að kalla sig hefur heldur betur slegið í gegn. Frumburðurinn heitir "Please Don´t Hate Me" og er búinn að vera söluhæsta platan í verslunum Skífunnar frá því hún kom út fyrir 3 vikum.

Platan hefur einnig fengið góðar viðtökur í fjölmiðlum og hlotið einróma lof gagnrýnenda sem keppast við að mæra stúlkuna hana Lay Low. Titillag plötunnar hefur hljómað ótt og títt á öldum ljósvakans og nú er annað lag af plötunni komið í spilun og heitir það "Boy Oh Boy". Margur kannast kannski við lagið sem kemur fyrir í sjónvarpsauglýsingu á vegum Samskipa.

Lay Low tók þátt í hinni árlegu tónlistarhátíð Iceland Airwaves um daginn og spilaði fyrir troðfullu Nasa snemma á fimmtudagskveldi hátíðarinnar. Óhætt er að segja að tónleikar hennar ásamt hljómsveit hafi staðið uppúr á hátíðinni enda umfjallanir og dómar um tónleikana frábærir.

Nú er komið að útgáfutónleikum plötunnar "Please Don´t Hate Me" og fara þeir fram miðvikudagskveldið 29. nóvember n.k. í Fríkirkjunni í Reykjavík. Lay Low til halds og trausts á útgáfutónleikunum verður hljómsveitin sem stutt hefur við bakið á henni á tónleikum og spilaði meðal annars með henni á Airwaves en í henni eru; Magnús Árni Öder Kristinsson (hljómborð og slide gítar), Bassi Ólafsson (slagverk og bassi) og Sigurbjörn Már Valdimarsson (hljómborð og banjó).

Forsala á útgáfutónleikana hefst laugardaginn 18. nóvember kl. 12:00 í verslunum Skífunnar og á www.midi.is

Miðaverð á útgáfutónleikana er 1.500.- kr. auk miðagjalds.

 

400 aðgöngumiðar eru í boði og er frjálst sætaval.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.