Fastir pennar

Skemmdarverk við rússneska sendiráðið

Þetta er náttúrlega stóralvarlegt mál með ungu mennina sem í fylleríi stálu fána við rússneska sendiráðið. Þeir verða væntanlega ákærðir fyrir móðgun við stórveldið. Ég veit ekki hvort þetta er tími fyrir játningar, en sjálfur var ég vakinn einn sumarmorgun fyrir meira en tuttugu árum af fílefldum lögreglumönnum sem vildu yfirheyra mig vegna skemmdarverka við sovéska sendiráðið.

Mér var sagt að ekkert tjóaði fyrir mig að halda fram sakleysi mínu. Þeir hefðu vitni sem segðu að ég væri skemmdarvargurinn. Að auki hafði ég í fórum mínum nokkrar númeraplötur með diplómatamerki sem höfðu verið fjarlægðar af bifreiðum við sendiráðið.

Ég fór með lögreglumönnunum upp á stöð. Það var tekin skýrsla. Annar lögregluþjónninn vélritaði af mikilli vandvirkni en á meðan fór annar þeirra að segja mér að hann hefði eiginlega gert hið sama í mínum sporum - hann hefði nefnilega sjálfur verið starfandi í Heimdalli forðum tíð. Þetta væri ekki nema mátulegt á Rússana fyrir Ungverjaland, Tékkó og Afganistan.

Svo var ég látinn laus. Ég heyrði aldrei neitt meira um málið og það kom ekki stafkrókur um það í blöðunum.

--- --- ---

Ég er alinn upp í grennd við rússneska sendiráðið, gekk þar framhjá frá blautu barnsbeini og alltaf stóð manni hálfgerður stuggur af því. Það snerist ekki beinlínis um pólitík - mannaferðirnar þarna í kring voru bara svo furðulegar. Í kalda stríðinu voru þarna hátt í hundrað manns - að gera hvað? Einn og einn skar sig reyndar úr eins og Vladimir Verbenko sem fór um bæinn á Ladajeppa og vingaðist við blaðamenn og reyndi að hella í þá vodka og brandí með eilífu skáleríi - Na zdorovje. Hann var býsna slunginn náungi og væri gaman að vita hvort hann hefði flotið ofan á eftir lok kalda stríðsins - og ef svo er - í hvaða bisness.

--- --- ---

Rússar breytast ekki þótt kommúnisminn sé fyrir bí. Undanfarin misseri hafa þeir staðið fyrir stórkostlegum framkvæmdum í Garðastrætinu, nágrönnunum til furðu og skapraunar. Það hafa verið reistir skringilegir skúrar í garðinum bak við aðalbygginguna. Þessi vinna er mestanpart unnin af fólki sem lítur út eins og það sé komið beint úr vinnubúðum í Magnitogorsk á tíma fimm ára áætlunarinnar, þetta eru þrekvaxtar babjúskur með skuplur og niðurlútir karlar í slitnum vinnugöllum. Vinnubrögðin eru mjög gamaldags, en allt fer þetta fram með dæmigerðri rússneskri leyndarhyggju.

Í öðru sendiráði aðeins ofar í Garðastrætinu, í hinu gamla einbýlishúsi Ólafs Thors, eru Kínverjar búnir að reisa himinháa girðingu umhverfis garðinn og leggja einhvers konar teflonefni þar sem eitt sinn var grænt gras. Þar stunda þeir einhverja íþrótt - líklega tennis fremur en borðtennis. Þar ríður tortryggnin heldur ekki við einteyming.





×