Lífið

Djassdívan Andrea á Q Bar

Tónleikaröðin "Heita sætið" heldur áfram á Q bar við Ingólfsstræti annað kvöld. Á hverju fimmtudagskvöldi í sumar stígur nýr listamaður á stokk og skemmtir áheyrendum með leik eða söng við undirleik þeirra félaga Gunnars Hrafnssonar bassaleikara og Björns Thoroddsen gítarleikara.

Í síðustu viku settist Margrét Sigurðardóttir söngkona í heita sætið og söng hún þar fyrir fullu húsi gesta. Veislan heldur áfram í kvöld og næst á svið er söngdívan Andrea Gylfadóttir, sem fyrir löngu hefur skipað sér sess meðal fremstu listamanna þjóðarinnar.

Tónleikaröðin mun halda áfram út sumarið og jafnvel fram á haust að sögn Einars Geirs Jónssonar, skemmtanastjóra Q Bars. Hann segist finna fyrir miklum áhuga hjá fólki enda sé skortur á lifandi tónlist í miðbæ Reykjavíkur. Þá segir Einar að djass, blús og hvers konar sálartónlist sé tilvalin til lifandi flutnings enda dragi takturinn flesta upp úr sætunum og fólk dilli sér með.

Andrea hefur komið víða við á tónlistarferlinum skipta þær plötur orðið tugum, sem hún hefur sungið inná, hvort sem verið hefur undir eigin nafni eða með hljómsveitum sem hún hefur starfað með. Meðal helstu sveita sem Andrea hefur sungið með eru Grafík, Todmobile, Borgardætur, Vini Dóra, Tweety, Blúsmenn Andreu og ýmsar jazzhljómsveitir.

Hún hóf söngnám við Söngskóla Reykjavíkur árið 1985 og tók þaðan burtfararpróf tveimur árum seinna, 1987. En Andrea er ekki bara góð söngkona því hún nam einnig um tíma sellóleik við Tónlistarskóla Akraness, Tónlistarskóla Reykjavíkur og Tónlistarskóla Garðabæjar, auk þess að sækja einkatíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.