Lífið

Hádegistónleikar í Hallgrímskirkju

Næstkomandi fimmtudag, þann 22. júní klukkan 12.00, kemur Hörður Áskelsson organisti Hallgrímskirkju og söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, fram á fyrstu fimmtudagstónleikum tónleikaraðarinnar „Alþjóðlegt orgelsumar" á þessu sumri.

Hörður leikur á stóra Klais-orgel kirkjunnar verk eftir þrjú tónskáld, Johann Sebastian Bach, Jean-François Dandrieu og Kjell Mørk Karlsen.

Fyrsta verkið er Prelúdía og fúga í h-moll eftir Bach, eitt af stóru orgelverkum höfundarins, síðan leikur Hörður Magnificat í d eftir franska barokktónskáldið Dandrieu, en það er svíta í sex stuttum þáttum og loks Tvísöng, upphafsþátt úr orgelsinfóníu eftir norska samtímatónskáldið Karlsen.

Tvísöngur byggir á íslenskri sönghefð að syngja í fimmundum, verkið var upphaflega samið fyrir alþjóðlega samkeppni um orgelverk, sem Listvinafélag Hallgrímskirkju stóð fyrir í tilefni af vígslu Klais-orgelsins árið 1992, og hlaut verkið þar fyrstu verðlaun. Seinna gerði Karlsen Tvísöng að upphafskafla í stórri orgelsinfóníu, sem hann kallaði „sinfóníu norðursins" og tileinkaði Herði Áskelssyni. Þessi efnisskrá er hluti af efnisskrá tónleika sem Hörður leikur í Dómkirkjunni í Helsinki í Finnlandi á orgeltónleikum þann 2. júlí nk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.