Viðskipti erlent

Laun forstjóra Tesco hækka um 25 prósent

Mynd/AFP

Laun Terry Leahys, forstjóra bresku verslunarkeðjunnar Tesco, hafa hækkað um 25 prósent á milli ára. Árslaun forstjórans nema nú fjórum milljónum punda, jafnvirði rúmlega 524 milljóna íslenskra króna. Innifalin í launum hans eru hlunnindagreiðslur upp á 2,8 milljón pund, jafnvirði tæpra 380 milljóna íslenskra króna.

Launahækkun Leahys er tengd góðri afkomu verslunarkeðjunnar en tekjur hennar námu 41,8 milljörðum breskra punda á síðasta ári, að því er fram kemur í ársuppgjöri fyrirtækisins.

Verslunarkeðjan Tesco hefur 30 prósenta markaðshlutdeild í Bretlandi og hefur verið gagnrýnt fyrir ofríki á breska markaðnum.

Að sögn breska ríkisútvarpsins hefur Tesco í hyggju að stækka við sig og hefja sölu á einkatölvum í stærstu verslunum fyrirtækisins. Er það markmið verslunarinnar að fartölvur frá Samsung, Toshiba og Gateway muni verða undir 400 pundum, jafnvirði rétt rúmra 50.000 íslenskra króna, og einkatölvur verði undir 300 pundum, jafnvirði rúmra 40.000 króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×