Fastir pennar

Da Vinci Code, skólagjöld, bílastæði

Það var kannski borin von að hægt væri að gera mynd eftir Da Vinci Code, bók sem byggir á kenningu sem er nánast samhengislaust þrugl, en tekst þó á einkennilegan hátt að vera spennandi. Kirkjan þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu - mýstíkin í bók Dans Brown verður svo gegnsæ í kvikmyndinni að hún virkar eins og hallærislegar kellingabækur. Sem hún auðvitað er. Fólkið sem flykkist með bókina undir hendi í Louvre, St. Sulpice eða Westminster Abbey á eiginlega bágt.

Þetta er ein af þeim myndum þar sem maður er farinn að líta á klukkuna eftir hálftíma, stroka út gömul skilaboð úr símanum, athuga hvort maður geti fundið nýja skjámynd. Semsagt afar langdregin. Kannski er helsti vandi leikstjórans, Rons Howard, hvað hann fylgir sögunni nákvæmlega - hann hefur vísast ekki þorað öðru af ótta við að móga hinn stóra lesendahóp.

Ég segi ekki að Howard hafi breytt gulli í blý - það var aldrei neinn sérstakur eðalmálmur í bókinni. Svo græða þeir ábyggilega heilan helling á myndinni. En þetta er frekar slappt. Hanks er voða vandræðalegur, veit ekki hvernig hann á að vera, Audrey Tautou algjörlega óeftirminnileg - maður myndi ekki þekkja hana þótt maður rækist á hana á leiðinni út úr bíóhúsinu - en stórleikarinn Ian McKellen slær þessu öllu upp í grín, lætur bókstaflega eins og fífl.

Þeir ættu að hýrudraga hann fyrir að grafa undan alvörunni í myndinni.

--- --- ---

Það er ægilegt hvað stjórnmálaflokkarnir hérna eru hræddir við umræðu um skólagjöld. Þau eru alveg sjálfsagt mál á háskólastigi. Það á ekki að taka mark á stúdentum sem mótmæla þeim, þeir eru bara í hagsmunabaráttu. Bestu háskólar í heimi innheimta skólagjöld. Þau veita nemendum aðhald, vinsa burt stúdenta sem er ekki alvara með náminu, gera skólana efnaðri - svo er hægt að nota hluta þeirra til að veita góðum námsmönnum styrki.

Á sama hátt er sjálfsagt að taka bílastæðagjald af stúdentum jafnt og öðru fólki. Ef þeir hafa efni á að reka bíla, þá hafa þeir efni á að borga í stæði. Umræða um að ekki megi taka upp stöðumæla við skóla er ekki annað en skrum.

Geysilegt landflæmi við Háskóla Íslands fer undir bílastæði. Hvernig verður þá umhorfs við Háskólann í Reykjavík þegar hann byggir í Vatnsmýri - hvað fer mikið land þar undir stæði?





×