Tónlist

Finnst gaman að leika sér

Arngrímur Marteinsson, sem hefur lengi gutlað við píanó og harmonikku, gaf Ingibjörgu Sveinsdóttur trommusettið í sextugsafmælisgjöf.
Arngrímur Marteinsson, sem hefur lengi gutlað við píanó og harmonikku, gaf Ingibjörgu Sveinsdóttur trommusettið í sextugsafmælisgjöf. MYND/Stefán

Hjónin Arngrímur Marteinsson og Ingibjörg Sveinsdóttir hafa í nógu að snúast um þessar mundir. Það er þó ekki hefbundið jólastress sem herjar á hjúin, því þau ferðast um borgina endilanga til að halda tónleika – bæði með hljómsveitinni Vinabandinu og sem dúettinn Hjónabandið.

Þó að Arngrímur og Ingibjörg hafi verið gift í áratugi er tónlistarsamstarfið þó tiltölulega nýtilkomið. „Ég var alltaf svona gutlandi á píanó og harmonikku og spilaði á böllum,“ sagði Arngrímur, „en Ingibjörg byrjaði ekkert fyrr en um sextugt. Mig vantaði svo trommuleikara með mér og hún bauð sig fram. Hún fékk trommusettið í sextugsafmælisgjöf og fór að spila. Það gekk alveg ágætlega og hefur gengið síðan,“ útskýrði Arngrímur.

Vinabandið er hins vegar sprottið upp úr félagsstarfi í Gerðubergi. „Þangað komu hljóðfæraleikarar sem voru hættir að vinna ákveðna daga í viku,“ sagði Arngrímur. „Svo var Guðrún Jónsdóttir í Gerðubergi beðin um að útvega hljómsveit fyrir landsmót hjá samtökum sem ég man í svipinn ekki alveg hvað heita, og benti á okkur,“ sagði Arngrímur. „Við köllum hana einmitt mömmu okkar af því að það var hún sem kom þessu öllu af stað,“ bætti hann við. Hljóðfæraleikararnir héldu eina æfingu, spiluðu á samkomunni og hafa varla lagt frá sér hljóðfærin síðan.

„Guðrún skírði þetta Vinabandið, við erum fjórir hljóðfæraleikarar og fjórir söngvarar,“ sagði Arngrímur, en hljómsveitin hefur nú verið starfrækt í ein níu ár.

Hljómsveitirnar tvær hafa haft nóg að gera. „Núna erum við að spila svona fjórum, fimm sinnum í viku, það eru jólaskemmtanir úti um allt,“ sagði Arngrímur. „Venjulega spilum við ekki nema svona tvisvar, þrisvar í viku,“ bætti hann við. Hljómsveitirnar hafa nokkra fasta viðkomustaði og sækja Alzheimersjúklinga og eldri borgara reglulega heim. „Svo erum við alltaf á Sólheimum í Grímsnesi tvisvar á ári,“ sagði Arngrímur. Efniskrá sveitanna inniheldur yfirleitt lög sem eldri íbúar landsins kunna. „Við spilum lög með íslenskum texta, reynum að fá alla til að syngja með og svo er alltaf dansað mikið,“ sagði hann.

Arngrímur segir Vinabandið og Hjónabandið yfirleitt ekki þiggja laun fyrir greiðann. „Ekki nema því sé þröngvað upp á okkur. Við erum bara að leika okkur og finnst það gaman,“ sagði hann keikur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.