Bíó og sjónvarp

Gaza-ströndin

Félagið Ísland-Palestína stendur fyrir sýningu á kvikmyndinni Gaza Strip á Kaffi Kúltúra í Alþjóðahúsinu, Hverfisgötu 18, í kvöld. Hljómsveitin Retro Stefson mun leika nokkur lög áður en sýningin hefst og Sveinn Rúnar Hauksson læknir heldur stutta tölu um aðskilnaðarmúrinn sem risinn er á herteknu palestínsku landi og ástandið á Gaza.

Gaza Strip er 74 mínútna heimildarmynd frá árinu 2002 sem vakið hefur verðskuldaða athygli, m.a. á kvikmyndahátíðum víða um heim. Myndin er á arabísku, en með enskum texta. Í henni gefur leikstjórinn James Longley áhorfandanum innsýn inn í daglegt líf íbúa Gaza-strandarinnar og þær hörmungar sem venjulegir Palestínumenn mega þola í skugga átaka og hernáms.

Myndin er tekin yfir þriggja mánaða tímabil sumarið 2001 og varð tökuliðið tvisvar fyrir skotárásum hernámsliðsins meðan á tökum stóð. Síðan hún var gerð hefur herinn hörfað að landamærum Gaza og yfirgefið ísraelskar landránsbyggðir á svæðinu. Rúmlega milljón Palestínumönnum á svæðinu er hins vegar enn haldið í heljargreipum með innilokunum og árásum, enda Gaza-ströndinni stundum lýst sem stærsta fangelsi heims. Dagskráin hefst kl. 20.00 með nokkrum lögum Retro Stefson, sem leika órafmagnað. Kvikmyndasýningin hefst kl. 20.30. Aðgangur er ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×